Þann 13. október árið 2021 skók skelfilegur glæpur friðsælt úthverfi í Denver, Colorado. Hverfið heitir Longmont. Þann dag, í hádeginu, rufu fimm skothvellir þögnina og vöktu skelfingu á meðal þeirra íbúa sem heyrðu þá.
Póstburðarmaðurinn Jason Schaefer, fannst þar sem hann lá í blóði sínu, hann hafði verið skotinn fimm sinnum í andlitið.
Strax í upphafi rannsóknar málsins blasti tvennt við: Annars vegar að mikið hatur virtist hafa knúið árásarmanninn til verknaðarins og hins vegar að glæpurinn virtist vera þaulskipulagður.
Jason hafði verið að bera út póst í hverfinu þegar hann var skotinn. Efni úr eftirlitsmyndavélum leiddi í ljós að bíll barnsmóður hans, Devan Schreiner, hafði verið nálægt vettvangnum.
Þessu neitaði Devan í lögregluyfirheyrslu. Devan, sem einnig starfaði við póstdreifingu, hafði, að sögn, verið á þessum tíma að störfum í öðru hverfi. Hún hafði hins vegar tekið hádegismat heima hjá kærastanum sínum, sem bjó í Longmont.
Kærastinn, AJ Ritchie, hafði hins vegar snætt hádegismat annars staðar og því var ljóst að Devan var ekki að segja satt.
Í öryggismyndavélunum sást lágvaxin manneskja í svartri hettupeysu skjóta Jason Schaefer til bana. Líkamsbyggingu morðingjans svipaði til Devan en andlitið var hulið.
Rannsókn lögreglu á snjallsímum Devan og Ritchie leiddi hins vegar í ljós að þau virtust hafa skipulagt morðið á Jason Schaefer í þaula og lagt vinnu í að kortleggja ferðir hans fram að tilræðinu.
En hvers vegna Jason var myrtur?
Devan og Jason höfðu bæði starfað lengi hjá póstþjónstunni í Denver og þau felldu hugi saman árið 2016. Þau eignuðust saman dreng en síðan slitnaði upp úr sambandinu og Jason flutti út. Þau höfðu í fyrstu eftir sambúðarslitin reynt að eiga í góðum samskiptum vegna sonarins. En Jason vildi frá aukið forræði yfir syninum og lögfræðingur hans sendi Devan kröfubréf með áætlun um skipt forræði. Þessi gögn fann lögregla á síma Devan og talið var að þessi afstaða Jasons hafi valdið henni mikilli gremju.
Þetta var þó ekkert í samanburði við þá reiði sem það olli henni að Jason hafði nýlega tekið saman við yngri systur hennar, Rosu. Þó að Devan og Jason væru ekki lengur par og hún ætti kærasta misbauð henni þetta afar mikið, svo mikið að hún ræddi um það við vini og kunningja að hana langaði til að vinna Jason mein.
Í myndbandinu hér að neðan má sjá lögregluyfirheyrslur yfir Devan. Hún ber sig vel til að byrja með en er afar ósátt við að fá ekki að sjá son sinn og að hann sé í gæslu hjá lögreglunni. Smám draga lögreglumennirnir fram spil sín því þeir telja augljóst að hún hafi verið viðriðin málið. Devan neitar sök en virkar ekki trúverðug.
Bæði hún og AJ Ritchie voru dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morðið. Það var þó Devan sem tók í gikkinn en Ritchie skipulagði glæpinn með henni.