Óhugnanlegt barnaníðsmál er nú til rannsóknar hjá lögreglunni í Bibb-sýslu í Alabama. Þrír menn, þeir William Chase McElroy, Dalton Terrell og Andres Velazquez-Trejo, voru handteknir fyrr á árinu (í febrúar og apríl) vegna gruns um að hafa haldið börnum í neðanjarðarbyrgi í bænum Brent í Alabama. Mennirnir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá handtöku. Fjórar aðrar manneskjur hafa verið ákærðir fyrir hlutdeild í glæpunum og sitja einnig í gæsluvarðhaldi.
Mennirnir eru meðal annars ákærðir fyrir nauðganir, kynferðislegar pyntingar, mansal og mannrán.
Greint er frá þessu í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglustjórans í Bibb-sýslu. Segir þar að hryllileg hegðun af þessu tagi verði ekki liðin í umdæminu og sakborningar verði lögsóttir af fullum þunga.
Samkvæmt frétt New York Post voru börnin a.m.k. tíu talsins, alveg niður í tveggja ára aldur og upp í 15 ára. Voru þau pyntuð kynferðislega með ólýsanlega viðurstyggilegum hætti.
Myndin hér að ofan kemur frá embætti lögreglustjórans og sýnir vistarverur þar sem börnunum var haldið.
Sakborningarnir þrír sem nefndir voru til sögunnar hér að framan eru taldir höfuðpaurar í málinu en fjórar manneskjur hafa verið ákærðar líka, þar á meðal eru tvær konur. Eru þær mæður barna sem misþyrmt var í byrginu.
Andres Velazquez-Trejo er sagður hafa byrlað börnunum ólyfjan og síðan leitt inn til þeirra vændiskaupendur sem voru tilbúnir að greiða allt að 1.000 dali fyrir að nauðga börnum. Áður en að nauðguninni kom voru börnin bundin inni í herbergjum eins og því sem myndin að ofan sýnir.
Jody Wade, lögreglustjóri í Bibb-sýslu, sagði á blaðamannfundi um málið: „Ég veit að fyrirgefning guðs er takmarkalaus en ef það eru einhver takmörk fyrir henni þá held ég að við höfum náð þeim mörkum.“
Rannsókn málsins er ekki lokið þrátt fyrir ákærur en hún er mjög langt komin. Lögreglustjórinn segir að ómögulegt sé að vita á þessari stundu hvað mörg börn voru þolendur barnaníðshringsins. Allir sjö sakborningarnir eru í gæsluvarðhaldi.