fbpx
Laugardagur 26.júlí 2025
Pressan

Afbrotafræðingur myrti fjóra háskólanema á meðan þeir sváfu og neitar að útskýra hvers vegna – Aðstandendur láta hann heyra það

Pressan
Fimmtudaginn 24. júlí 2025 14:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórir háskólanemar fundust látnir á heimili sínu í Idaho árið 2022 og í vikunni var þrítugi afbrotafræðingurinn Bryan Kohberger dæmdur í fjórfalt lífstíðarfangelsi fyrir morðin, án möguleika á reynslulausn. Kohberger játaði ódæðið til að sleppa við dauðarefsinguna en neitaði þó að svara því hvers vegna hann myrti háskólanemana, en hann hafði engin tengsl við fjórmenningana.

Hin látnu voru Madison Mogen sem var 21 árs, Kaylee Goncalves sem var 21 árs, Xana Kernodle sem var tvítug og Ethan Chapin sem einnig var tvítugur.

Gjarnstjarna

Fjölskyldur hinna látnu lásu upp yfirlýsingar í dómsal. Yfirlýsing systur Kaylee hefur vakið mikla athygli en Alivea Gonclaves sagðist ekki vera mætt í dómsal til að tala út frá sorg sinni heldur út frá staðreyndum.

„Systir mín Kaylee og besta vinkona hennar Maddie voru ekki fyrir þig til að svipta lífi. Þær voru ekki til svo þú gætir fylgst með þeim, setið um þær eða þaggað niður í þeim. Þær eru allt sem þú getur aldrei verið: elskaðar, samþykktar, líflegar, árangursríkar, hugrakkar og öflugar. Þær hefðu verið góðar við þig hefðir þú nálgast þær úti á götu. Þær hefðu getað leiðbeint þér, þakkað þér fyrir hrósið. Í heimi sem hafði hafnað þér hefðu þær sýnt þér miskunn.“

Alivea kallaði Kohberger aumkunarverðan hugleysingja með ranghugmyndir. Hann hafi haldið sig greindari en alla aðra en nú muni hann rotna á bak við lás og slá.

„Að lúra í skuggunum gerði þig stóran í eigin huga því enginn veitti þér nokkra athygli í birtunni. Þú hélst þú værir einstakur út af einkunnum á pappírum, þú hélst þú værir útvalinn því netgreindarpróf frá árinu 2010 sagði þér að þú værir það. Allar tilraunir þínar til að verða mikilvægur voru örvæntingafullar. Það er til nafn fyrir þetta ástand sem útþanin sjálfsmynd þín leyfði þér ekki að sjá það – gjarnstjarna (e. wannabe).“

Hún tók jafnframt fram að hefði Kohberger nálgast Kaylee að degi til hefði hún tekið í lurginn á honum. Það gerði hann þó ekki heldur réðst á hana á meðan hún svaf. Alivea sagði að Kohberger væri hvorki sérstakur né djúpt þenkjandi. Enginn væri hræddur við hann.

„Sannleikanum samkvæmt er það skuggalegasta við þig hvað þú ert sorglega mikill meðalmaður. Sannleikurinn er að þú ert eins vitlaus og það gerist, heimskur, klaufalegur, seinfær, hroðvirkur, aumur og sorugur. Leyfðu mér að vera ómyrk í máli: Aldrei reyna að sannfæra sjálfan þig um að þú skiptir máli bara því einhver sagði loksins nafnið þitt upphátt. Ég sé í gegnum þig.“

Það eina góða sem ég hef gert

Önnur yfirlýsing sem hefur vakið athygli kom frá föður Madison, Ben Mogen, en hann lýsti því hvernig dóttir hans hefði hjálpað honum á beinu brautina í baráttunni við erfiðan fíknisjúkdóm.

„Maddie var eina barnið sem ég átti. Hún var það eina góða sem ég hef nokkurn tímann gert, og það eina sem ég hef nokkurn tímann verið stoltur af. Og ég hélt við hefðum restina af lífinu saman, til að vera saman og þekkja hvort annað og ég tók henni sem sjálfsögðum hlut á tímabilum, þið vitið, hún var í háskóla og ég hugsaði að við hefðum restina af lífinu til að segja og gera hlutina sem okkur var ætlað. Og hún var við það að útskrifast. Hún hafði þegar klárað allar einingarnar sem hún þurfti til að útskrifast.“

Hann lyfti svo upp síðasta bréfinu sem Madison hafði skrifað honum, korti í tilefni feðradagsins.

„Ég ætla að lesa hvað hún skrifaði. Þarna stendur: Gleðilegan feðradag. Ég vona að þú eigir frábæran dag. Ég get ekki beðið eftir að fá að hanga með þér fljótlega. Ég verð í Coeur d’Alene frá 24. júní til 4. júlí og vonandi finnum við tíma til að hittast þá. Ég elskaði afmæliskortið sem þú sendir mér. Kannski getum við farið saman á tónleika fljótlega. Ég hefði gaman að því að fara á The Gourds þegar það er ekki svona heitt úti. Ég vona að þú hafir það gott. Ég er stolt af því hvað þú hefur náð langt. Takk fyrir að hvetja mig alltaf til að gera mitt besta. Ég elska þig endalaust. Ást, Maddie Mae.“

Ben tók fram að dóttir hans hafi alltaf hvatt hann áfram, hvatt hann til að gera betur og til að lifa. Hann hafi gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna fíknisjúkdóms og missti um tíma lífsviljann. Madison hélt honum á lífi. Ben átti svo erfitt með að klára að lesa upp yfirlýsinguna.

„Það mun aldrei neitt koma í stað hennar. Ég skrifaði niður fullt af hlutum, ég bara, ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég sakna hennar bara svo mikið og ég elska hana meira en allt.“

Ben sagðist í raun sáttur með lífstíðardóminn vitandi að Kohberger muni verja restinni af lífinu í fangelsi sem er fullt af fólki sem vill honum illt. Hann þurfi að vakna á hverjum degi og velta því fyrir sér hvort hann verði myrtur af samfanga.

Ekkert geti réttlætt ódæðið

Fjölskyldurnar lýstu margar yfir vonbrigðum með að Kohberger hafi gert dómsátt án þess að þurfa að upplýsa hvers vegna hann myrti ungmennin. Dómarinn sagðist skilja reiðina.

„Mig langar, eins og fleiri, að skilja hvers vegna þetta gerðist. En þegar ég velti þessu fyrir mér þá finnst mér, og þetta er bara mín skoðun, að með því að halda áfram að velta fyrir sér hvers vegna þá séum við að halda áfram að gefa Kohberger pláss, við gefum honum rödd og við gefum honum vald.“

Dómarinn bætti við að engin útskýring gæti réttlætt það sem gerðist og það besta í stöðunni væri að leyfa Kohberger að falla í gleymskunar dá.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er þó á öðru máli en samskiptafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Karoline Leavitt, segir að forsetinn hefði helst viljað þvinga Kohberger til að útskýra ódæðið opinberlega.

Þó svo að Kohberger hafi ekki útskýrt hvers vegna hann myrti fjórmenningana hafa ýmsar kenningar komið fram, svo sem að hann sé svokallaður incel sem hafi viljað ná sér niður á ungum konum fyrir að líta ekki við honum. Kohberger var í doktorsnámi í afbrotafræði þegar morðin áttu sér stað og gegndi stöðu aðstoðarkennara. Fyrrum samstarfsfélagi hans sagði lögreglu að Kohberger hafi átt í óviðeigandi samskiptum við kvenkyns nemendur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Í mál við vinnuveitanda út af kynþáttamismunun – Sneru sólbrún til baka úr óleyfilegu sumarfríi og voru rekin

Í mál við vinnuveitanda út af kynþáttamismunun – Sneru sólbrún til baka úr óleyfilegu sumarfríi og voru rekin
Pressan
Fyrir 5 dögum

Lögreglan bjargaði 21 barni frá hjónum sem eignuðust þau með staðgöngumæðrun – „Lyktar af mansali“

Lögreglan bjargaði 21 barni frá hjónum sem eignuðust þau með staðgöngumæðrun – „Lyktar af mansali“
Pressan
Fyrir 1 viku

Flugfarþegi notaði nýstárlega aðferð til að fá meira fótapláss á kostnað annars

Flugfarþegi notaði nýstárlega aðferð til að fá meira fótapláss á kostnað annars
Pressan
Fyrir 1 viku

Leikkona harðlega gagnrýnd fyrir að nota sæði eiginmannsins eftir skilnaðinn og án hans samþykkis

Leikkona harðlega gagnrýnd fyrir að nota sæði eiginmannsins eftir skilnaðinn og án hans samþykkis
Pressan
Fyrir 1 viku

Mætti alblóðugur á lögreglustöð eftir að hafa myrt tengdamóður sína og játaði – Samt var hann sýknaður með ævintýralegum hætti

Mætti alblóðugur á lögreglustöð eftir að hafa myrt tengdamóður sína og játaði – Samt var hann sýknaður með ævintýralegum hætti
Pressan
Fyrir 1 viku

Trump reynir að róa brjálaða MAGA-liða – „Sóum ekki tíma og orku í Jeffrey Epstein, einhvern sem öllum er sama um“ 

Trump reynir að róa brjálaða MAGA-liða – „Sóum ekki tíma og orku í Jeffrey Epstein, einhvern sem öllum er sama um“