Þekkti verjandinn Roy Black er látinn áttræður að aldri. Hann var þekktastur fyrir vinnu sína í þágu níðingsins Jeffrey Epstein, en hann hjálpaði fyrrum athafnamanninum að gera réttarsátt í sakamáli árið 2008, en þá hafði Epstein verið sakaður um að kaupa vændi af ólögráða stúlkum.
Með réttarsáttinni tókst Epstein að sleppa við þungan dóm og frekari ákærur. Hann þurfti aðeins að sæta 18 mánaða fangelsi og af þeim afplánaði hann aðeins 13.
Árið 2015 freistaði Black þess að koma í veg fyrir birtingu tölvupósta og bréfa sem lögmenn Epsteins höfðu sent í tengslum við undirbúning réttarsáttarinnar, en Black sagði að Epstein yrði fyrir miklum skaða ef efni póstanna yrði opinberað. Epstein svipti sig lífi í fangelsi árið 2019.
Black tók einnig að sér fleiri þekkta skjólstæðinga, svo sem poppstjörnuna Justin Bieber, þegar hjartaknúsarinn sá var sakaður um ölvunarakstur. Þökk sé Black var Bieber aðeins sakfelldur fyrir óaðgætilegan akstur og fyrir að streitast á móti handtöku.
Black lést á heimili sínu á mánudaginn eftir veikindi. Fyrrum kollegar hans segja að nú sé fallinn hörkudulegur lögmaður sem hafi alla tíð lagt harðar að sér en aðrir fyrir skjólstæðinga sína. Ungir lögmenn í dag teldust heppnir kæmust þeir með tærnar þar sem Black hafði hælana. Black lætur eftir sig eiginkonu og tvö uppkomin börn.
Náinn samstarfsmaður Black, Howard Srebnick, segir að Black hafi verið besti sakamálalögmaður sinnar kynslóðar og náð fram sýknu í jafnvel erfiðustu málum. Til marks um dugnaðinn þá var Black áttræður þegar hann lést, en hann hafði aldrei farið á eftirlaun heldur vann nánast fram á síðasta dag.