Leikarinn Malcom-Jamal Warner er látinn 54 ára að aldri. Warner gerði garðinn frægan sem táningur þegar hann lék son Bill Cosby í grínþáttunum The Cosby Show.
Erlendir miðlar greina frá því að leikarinn hafi verið í ferðalagi með fjölskyldu sinni í Costa Rica. Hann ákvað að fá sér sundsprett í sjónum nærri bænum Cahuita en lenti í sterkum hafstraum sem dró hann lengra út á haf. Fjöldi fólks á ströndinni freistaði þess að bjarga leikaranum en þegar loks tókst að koma honum aftur á fast land hafði hann drukknað og var úrskurðaður látinn.
Warner lék Theodore Huxtable sem var einkasonur hjónanna í The Cosby Show. Þættirnir voru í loftinu frá 1984 til 1992. Hann lék einnig í fleiri vinsælum þáttaröðum svo sem Suits og Sons of Anarchy.