Bandaríski læknirinn Jorge Zamora-Quezada var í síðustu viku dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir umfangsmikil og langvarandi tryggingasvik. Ágóða brota sinna notaði læknirinn til að fjármagna lúxuslífstíl, en áætlað er að hann hafi krafið tryggingarfélögin ranglega um rúmlega 15 milljarða. Tryggingafélögin hafi á grundvelli þessara karfna greitt út rúmlega 3 milljarða.
Saksóknari lýsti því fyrir dómi að gigtlæknirinn hafi stundað svik sín í næstum tvo áratugi. Svikin fóru þannig fram að hann greindi sjúklinga ranglega með alvarlega sjúkdóma á borð við króníska, einkum með króníska liðagigt. Hann sendi sjúklinga sína í rándýrar rannsóknir og lét þá gangast undir dýrar meðferðir – þrátt fyrir að vita að það amaði ekkert að þeim. Svo sendi hann reikninginn fyrir þessu öllu saman á tryggingarfélögin sem borguðu í góðri trú.
Fyrrum sjúklingar hans mættu fyrir dóm og lýstu því hvaða afleiðingar þetta hefði allt haft fyrir líf þeirra. Óþarfa lyfja- og læknismeðferðum fylgdu gjarnan alvarlegar aukaverkanir. Sumir höfðu fengið heilablóðfall vegna þeirra, lifrarskemmdir, misstu hár og glímdu við lamandi verki. Einn sjúklingur endaði rúmliggjandi, annar lýsti því svo að læknirinn hafi notað ólögráða barn hans sem tilraunarottu. Sjúklingarnir greindu eins frá því að fölsku greiningarnar hafi kollvarpað lífi þeirra – sumir höfðu sagt upp störfum eða hætt í námi enda töldu þeir sig glíma við alvarlega og ólæknandi sjúkdóma. Nokkrir sjúklingar lýsti því svo að þeir væru í dag að lifa lífinu í líkama ellilífeyrisþega, þrátt fyrir að vera enn ungir að árum. Allt út af óþarfa lyfjameðferð.
Fyrrum starfsmenn læknisins lýstu eitraðri vinnustaðamenningu. Zamora-Quezada hafi talað um sig sem heilagan alráð. Hann hafi hefnt sín á þeim sem reyndu að mótmæla greiningum hans eða fyrirmælum. Eins stundaði læknirinn það að ráða inn innflytjendur með tímabundið atvinnuleyfi og hótaði þeim brottvísun ef þeir kysstu ekki vöndinn.
Það var deild innan bandaríska dómsmálaráðuneytisins, sem er sérhæfð í sjúkratryggingasvikum, sem fór með rannsókn málsins. Ráðuneytið sagði í yfirlýsingu að læknirinn hefði misnotað sjúklinga í viðkvæmri stöðu til að viðhalda lúxuslífsstíl sínum og á kostnað skattgreiðenda. Ráðuneytið fagnaði því að læknirinn hlaut þungan dóm enda sé það öðrum víti til varnaðar. Dómari gerði eins upptækar eignir sem er talið að læknirinn hafi keypt fyrir illa fengið fé, þar með taldar 13 fasteignir, einkaflugvél og lúxusbifreið af gerðinni Maserati Gran Turismo.
Þó að kröfunum hafi verið beint að einakreknum tryggingafélögum þá komu greiðslurnar í raun frá skattgreiðendum í gegnum ýmsar útgáfur opinberra sjúkratrygginga á borð við Medicare, Medicaid, TRICARE og Blue Cross Blue Shield.
„Zamora-Quezada fjármagnaði lúxuslífsstíl sinn í tvo áratugi með því að hrella sjúklinga sína, misnota starfsmenn, með því að ljúga að tryggingafélögum og með því að stela skattpeningum.“