Í fyrsta lagi hafði hún pantað flugið með EasyJet en vélin sem hún fór upp í var frá Ryanair. Hún hugsaði með sér að hugsanlega væru flugfélögin í samstarfi varðandi þetta tiltekna flug – sætið hennar var að minnsta kosti laust. Þegar leið á flugferðina furðaði hún sig einnig á því hversu langt ferðalagið var. Allavega miklu lengra en þessi klukkutími sem það á alla jafna að taka.
Það var ekki fyrr en vélin lenti að Lena áttaði sig á því að hún var alls ekki í Berlín. Þegar hún steig út úr flugvélinni og fór inn á flugvöllinn stóð nefnilega skýrum stöfum á skilti: „Velkomin til Bologna.“
Röð mistöka urðu til þess að Lena steig upp í ranga flugvél. Hún mætti tímanlega á flugvöllinn, samkvæmt frétt Expressen, og fór vandræðalaust í gegnum öryggisleitina. Hún leit svo á sjónvarpsskjá á flugvellinum þar sem hún sá að fólk ætti að ganga að hliðinu.
Mistökin sem Lena gerði var að hún var of tímanlega í því, Ryanair vélin átti að fara fyrst frá þessu tiltekna hliði og svo vélin frá EasyJet. Tilviljun réði því að sætið sem hún átti pantað með EasyJet var laust í flugi Ryanair og virðast mistök hafa orðið til þess að hægt var að skanna miðanna hennar í flugið til Berlínar í flugið til Bologna.
Lena segir að starfsfólkið á flugvellinum í Bologna hafi ekki verið mjög hjálplegt og sakað hana um að bera ábyrgð á mistökunum. „Ég er 79 ára gömul, ferðast ein og lenti í viðkvæmri stöðu,“ segir hún.
Í Berlín hugðist hún hitta son sinn, Paul-Johan, og ætlaði hún að ferðast með honum áfram til Rostock í Norður-Þýskalandi til að vera honum til aðstoðar með hópi nemenda sem ætlaði að taka þátt í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um síðustu helgi.
Eftir að Lena hafði eytt nánast öllum deginum á flugvellinum í Bologna pantaði starfsfólk Ryanair fyrir hana leigubíl og við tók tveggja tíma akstur til Feneyja. Þar dvaldi hún á hóteli uns hún flaug morguninn eftir til Berlínar.
Í frétt Expressen segir að ekki sé ljóst hvernig hún komst um borð í Ryanair-vélina án þess að vera með réttan flugmiða. Sjálf segist Lena ekki vera viss en talur sig hafa sýnt bæði brottfararspjaldið og vegabréfið sitt. Í svari við fyrirspurn Expressen segir Ryanair að það sé á ábyrgð hvers farþega að ganga úr skugga um að hann fari um borð í rétta flugvél.