Donald Trump Bandaríkjaforseti vakti athygli á sunnudaginn þegar hann birti nokkuð vanstillta færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann sagði Vladímír Pútín Rússlandsforseta „algjörlega genginn af göflunum“. Trump sagðist ávallt hafa átt í góðu sambandi við Pútín en greinilega hafi eitthvað komið fyrir Rússlandsforseta og hann sé klárlega ekki lengur með réttu ráði. Pútín sé að myrða fjölda fólks að óþörfu. Trump sagði við blaðamenn í framhaldinu að hann væri að íhuga refsiaðgerðir gegn Rússum.
Fréttamaðurinn og stjórnmálarýnirinn Brit Hume segist þó ekkert botna í þessum ummælum forsetans, enda sé Pútín bara að vera Pútín eins og venjulega. Hume ræddi um málið á Fox-fréttastofunni á mánudaginn þar sem hann sagði að Trump hafi alltaf haft undarlegar hugmyndir um Pútín og þeirra samband.
„Ég hugsa að hann hafi séð fyrir sér að hann og Pútín gætu verið eins konar vinir og kollegar sem gætu gert samninga saman,“ sagði Hume en Trump hefur ekki falið aðdáun sína á Rússlandsforseta í gegnum tíðina. „Ég veit ekkert hvað forsetinn er að tala um,“ hélt Hume áfram. „Svona hefur Pútín alltaf verið. Hann hefur alltaf verið einstaklega óvæginn einræðisherra sem er tilbúinn að gera hvað sem hann metur nauðsynlegt til að ná sínum markmiðum, og hvað sem hann telur sig komast upp með. Hann er bara sami gamli Vladímír Pútín.“
Hume veltir því fyrir sér hvort ummæli Trump bendi til þess að hann hafi loksins séð ljósið og áttað sig á því hvaða mann Pútín hefur í raun og veru að geyma. Hume hvetur forsetann til að grípa til aðgerða á borð við að beita bandaríska hernum, efnahagsþvingunum eða að senda fleiri vopn til Úkraínu svo hægt sé að ljúka þessu stríði. Trump hafi lofað því í kosningabaráttunni en ekki borið erindi sem erfiði til þessa.