
Maður hefur verið handtekinn og kærður fyrir að verða kvenkyns vinnufélaga sínum að bana vegna þess að honum líkaði ekki við hana.
Atvikið átti sér stað í verksmiðju matvælafyrirtækisins Advanced Process Technologies í Minnisota í Bandaríkjunum. Kona að nafni Amber Czech, tvítug að aldri, fannst liggjandi á gólfinu við vinnustöð sína og hafði fengið þunga höfuðáverka. Hún var þá þegar látin en hún lést af höfuðhöggum af hendi vinnufélaga síns, David Bruce Delong, 40 ára gamals manns, sem virðist hafa slegið hana í höfuðið með sleggju.
Atvikið átti sér stað þann 11. nóvember síðastliðinn, að morgni, og Delong var handtekinn sama dag og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan. Hann kom fyrir dómara þann 24. nóvember en ekki liggur fyrir hvort hann játaði sök.
Gögn úr eftirlitsmyndavélum sýna Delong nálgast vinnustöð Czech og slá hana í höfuðið með sleggjunni, alls fimm högg, þar af fjögur eftir að hún hafði hnigið niður í gólfið.
Sleggjan tilheyrði öðrum starfsmanni og er Delong sagður hafa sagt honum að hann hafi notað hana til að berja Czech með henni. „Ég barði hana með hamrinum þínum. Hann er hjá verkfærakassanum þínum. Hún er farin,“ á Delong að hafa sagt.
Rannsókn málsins heldur áfram og verið er að rannsaka hvort Delong hafi undirbúið glæpinn, til að ákvarða hvort hann verður ákærður fyrir fyrstu eða annarrar gráðu morð.
Sjá nánar hér.