
Um er að ræða hæstu upphæð sem fengist hefur fyrir myndasögublað. Superman #1 er af mörgum talinn hinn heilagi kaleikur í heimi safnara og var eintakið sem slegið var í síðustu viku í besta ástandinu af þeim sem þekkt eru.
Í frétt NBC News kemur fram að blaðið hafi fundist í kassa á háalofti í Norður-Kaliforníu þar sem þrír bræður voru að ganga frá eigum móður sinnar eftir andlát hennar.
Móðirin hafði lengi talað um að eiga upprunaleg teiknimyndasögublöð frá fjórða áratugnum, en mundi ekki hvar þau hefðu endað. Þegar bræðurnir fóru í gegnum kassa uppi á háalofti fundu þeir blaðið og duttu heldur betur í lukkupottinn.

Að sögn uppboðshaldara skilaði nánast ósnortið ástand blaðsins sér í lokaverðinu sem nemur vel yfir einum milljarði íslenskra króna.
Fyrirtækið CGC, sem sérhæfir sig í að staðfesta og meta ástand til dæmis teiknimyndasagna og spilakorta, gaf blaðinu einkunnina 9 af 10. Þykir það vera til marks um nánast fullkomið ástand blaðsins sem er afar sjaldgæft varðandi svo gamla muni.
„Superman nr. 1 er tímamótaverk í menningarsögunni, og þetta tiltekna eintak er ekki aðeins í frábæru ástandi heldur fylgir því saga sem er eitthvað eins og úr kvikmynd,“ sagði Lon Allen, aðstoðarforstjóri Heritage, í yfirlýsingu. „Við erum ánægð með að verðið endurspegli það.“
Í frétt NBC er rifjað upp að í Superman #1 birtist þessi vinsæla ofurhetja í fyrsta sinn í blaði sem helgað var henni einni. DC Comics höfðu þá ákveðið að nýta vinsældir Clark Kent/Superman úr Action Comics #1 frá 1938 og setja hann í eigið tímarit.
Ekki er talið að mörg eintök í svona góðu ástandi séu til í heiminum, en bent er á það að DC hafi hannað öftustu blaðsíðuna þannig að hægt var að klippa hana út og ramma inn. Telur Allen, aðstoðarforstjóri Heritage, að flestir krakkar hafi einmitt gert það. „Flest eintök sem lifðu af eru því illa farin eða búið að klippa þau.“