
Börn George höfðu fengið þá sögu að faðir þeirra hefði dag einn árið 1961 farið út í búð til að kaupa sér sígarettur en aldrei skilað sér til baka. Dagar urðu að vikum og mánuðir að árum og aldrei skilaði George sér heim til fjölskyldunnar.
Börnin fjögur bjuggu áfram í sama húsi ásamt móður þeirra sem lést árið 1998. Í nýrri heimildarmynd Investigation Discovery rifjar sonur þeirra hjóna, Mike, upp að móðir hans hafi ávallt verið þögul um föður þeirra og lítið vilja tala um fortíðina. Með dauða hennar hafi málið orðið allt að því óleysanlegt.
Í heimildarmyndinni, sem ber heitið The Secrets We Bury, rifjar Mike meðal annars upp ferð sem hann fór með systur sinni til miðils, þrátt fyrir vantraust hans á þeirri starfsstétt.
Þar heyrðu þau setningu sem átti eftir að hafa djúpstæð áhrif: „M-orðið: morð. Hann er í kjallaranum,“ sagði miðillinn, að sögn Carrolls. Vefritið People birti stiklu úr myndinni á dögunum sem verður frumsýnd þann 16. desember næstkomandi.
„Ég verð að finna hann,“ segir Carroll í myndinni. „Ég ætla að grafa.“
Synirnir Chris og Michael Jr. biðu ekki boðanna og hófu að grafa í kjallara hússins og stóð vinnan yfir í nokkra mánuði. Það leiddi að lokum til þess að mannabein fundust undir kjallaragólfinu. NBC New York greindi frá fundinum árið 2018, og DNA-greining staðfesti síðar að um jarðneskar leifar George Carroll var að ræða.
Lögreglan í Suffolk-sýslu skoðaði málið sem mögulegt manndráp, og í heimildarmyndinni sem vísað er til hér að framan er rýnt í hvað á að hafa gerst þegar Carroll hvarf. Í myndinni er rætt við Mike Carroll og systkini hans sem öll lýsa margra ára óvissu og leit að sannleikanum.
Heimildarmyndin verður sýnd á ID og í streymi á HBO Max.
