
Patricia Spann, bandarísk kona frá Oklahoma, giftist tveimur af sínum eigin börnum og reyndi að stofna til ástarsambands við þriðja barnið sitt. Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst?
Þetta furðulega mál var nýlega rifjað upp í bandarískri útgáfu Mirror.
Patricia missti forræði yfir þremur börnum sínum er þau voru mjög ung, amma barnanna í föðurætt ættleiddi börnin og ól þau upp. Eftir að börnin voru komin á táningsaldur komst Patricia aftur í kynni við þau og vingaðist við þau. Þetta var árið 2007. Þau vörðu miklum tíma heima hjá henni án þess að vita að hún væri móðir þeirra, hún sagðist vera vinur.
Particia varð sérstaklega náin syni sínum Jody, svo náin að árið 2008, þegar hann var 18 ára, giftist hún honum. Segist hann þá ekki hafa vitað að hann var að giftast líffræðilegri móður sinni.
Skömmu eftir þetta upplýsti amma (og uppeldismóðir) barnanna um að Patricia væri móðir þeirra. Þrátt fyrir þetta batt Jody ekki strax endi á hjónabandið. Bróðir hans Cody segir að Jody hafi verið undir sterku áhrifavaldi móður sinnar sem hafi beitt hann tilfinningalegri kúgun. En Jody lét ógilda hjónabandið árið 2010 og tilgreindi „blóðskömm“ sem ástæðu. Þrátt fyrir þetta aðhöfðust yfirvöld í Oklahoma, þar sem fjölskyldan bjó, ekki í málinu.
Cody, bróðir Jody, segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með endurfundina við líffræðilega móður sína því hún hafi farið á fjörurnar við hann og reynt að stofna til ástarsambands við hann. Hann segir hana vera sjúka manneskju, fulla af sjúklegu óeðli. Hann segir Patriciu hafa notfært sér löngun barna sinna til að verða hluti af lífi hennar og spilað á tilfinningalíf þeirra til að fullnægja óeðli sínu.
Blóðskömminni var ekki lokið því Patricia tók upp ástarsamband við dóttur sína Misty eftir endurfundi þeirra árið 2014. Þær létu gefa sig saman í hjónaband árið 2016, í Oklahoma. En nú blönduðu yfirvöld sér í málið. Patricia hafið gefið upp eftirnafnið „Clayton“ í stað Spann, á hjúskaparvottorðinu, og taldi að það myndi bjarga henni frá armi laganna.
Að því er kemur fram í eiðsvarinni yfirlýsingu málsins þá kvaðst Patricia hafa kannað lagagrundvöll þess að hún gæti gifst dóttur sinni og borið undir marga lögmenn hvort slíkt teldist glæpur. Hún sagði að samband þeirra mæðgna hefði ekki verið kynferðislegt, þrátt fyrir að þær væru giftar hvor annarri.
En samkvæmt lögum Oklahoma-ríkis flokkast það undir blóðskömm að giftast nánum ættingja hvort sem um kynferðissamband er að ræða eða ekki.
Hjónaband mæðgnanna var ógilt haustið 2017 að ósk Misty sem sagði ástæðuna vera „ólöglegt og svik“. Hún sagði að móðir hennar hefði sannfært hana um að hjónaband þeirra á milli væri ekki ólöglegt.
Mæðgurnar voru lögsóttar og gerði Misty dómsátt um tíu ára skilorðsbundið fangelsi. Patricia gekkst sömuleiðis undir dómsátt, játaði sök og fékk tveggja ára fangelsi.
Talsmaður lögreglu sagði að vísbendingar hefðu verið um kúgun og blekkingar af hálfu Patriciu í garð barna hennar sem hún giftist. Ekkert slíkt hefði þó verið tilkynnt til lögreglu. Auk þess bendi allt til þess að Misty hafi vitandi vits undirritað skjöl sem lögfestu hjónaband hennar við móður sína, fullmeðvituð um að hún væri líffræðileg móðir hennar. Hún bæri því líka ríka ábyrgð.
Sjá nánar hér.