Hún sást síðast á lífi um klukkan 09:30 þennan örlagaríka morgun í innkeyrslunni við heimili sitt. Vitni töldu sig hafa séð hana setjast inn í gráan fólksbíl með óþekktum karlmanni sem talinn er hafa verið um tvítugt. Hún sást aldrei á lífi eftir þetta og hefur lík hennar aldrei fundist.
Daginn áður hafði Trudy spurt föður sinn að því hvort hún mætti fara að synda með vini sínum í á skammt frá – á svæði sem þótti nokkuð vinsælt meðal ungmenna á svæðinu. Faðir hennar sagði nei en þegar Trudy hvarf daginn eftir virðist hún hafa tekið með sér sundföt og handklæði.
Þó að tæp þrjátíu ár séu liðin frá hvarfinu hefur lögregla aldrei gefist upp í rannsókn sinni.
Í síðustu viku tilkynnti Darren Gault, lögreglustjóri í Moline, að fimmtugur karlmaður hefði nú verið ákærður fyrir morðið á Trudy. Hann er grunaður um að hafa rænt ungu stúlkunni og þrengt að öndunarvegi hennar með þeim afleiðingum að hún kafnaði.
Hinn grunaði í málinu heitir Jamison Fisher og var hann fyrst nefndur til sögunnar sem hugsanlegur gerandi árið 2020. Lögregla hefur reynt að afla sönnunargagna gegn honum og það virðist loks hafa tekist í sumar.
Fisher var þegar í fangelsi í Iowa vegna rofs á skilorði þegar ákæra var gefin út á dögunum. Hann er talinn hafa þekkt fjölskyldu Trudy en ekki hefur þó verið greint frá því hver tengsl hans við Trudy voru nákvæmlega. Lögregla virðist þó vera viss í sinni sök um að Fisher hafi verið að verki þennan örlagaríka dag.
Lögreglustjórinn Darren Gault segir að handtakan marki tímamót í þessari ráðgátu sem staðið hefur óleyst í nærri þrjá áratugi. „Lögreglan í Moline er staðráðin í að leita sannleikans fyrir Trudy og fjölskyldu hennar og tryggja að réttlæti nái fram að ganga,“ segir hann.