Til að mæta þessum vinnuaflsskorti hefur einræðisstjórnin í Norður-Kóreu sent mörg þúsund menn til starfa í Rússlandi. Þar lifa þeir við skelfilegar aðstæður og eru nánast þrælar. Þeir vinna meðal annars við uppbygginguna í Kúrsk-héraðinu sem Úkraínumenn höfðu á valdi sínu í nokkra mánuði.
Sex norðurkóreskir verkamenn, sem tókst að flýja frá Rússlandi, skýrðu frá þessu í samtali við BBC.
Einn þeirra sagðist hafa unnið í 18 klukkustundir á sólarhring.
Aðrir sögðust hafa verið vaktir klukkan sex að morgni og neyddir til að vinna til tvö á nóttinni. Þeir fá tvo frídaga á ári.
„Það er hryllilegt að vakna og átta sig á að maður á að endurtaka sama hlutinn dag eftir dag,“ sagði einn viðmælanda BBC.
Hann sagðist yfirleitt hafa vaknað með krampa í höndunum og hafi ekki getað opnað lófana. Þetta hafi verið afleiðing af erfiðisvinnu dagsins áður.
„Sumir yfirgefa vinnuna á daginn til að sofa aðeins. Annars sofna þeir standandi. En verkstjórarnir finna þá og berja þá. Það var eins og við værum að deyja,“ sagði annar viðmælandi BBC.
Annar sagðist hafa hrapað úr fjögurra metra hæð og hafi andlitsbrotnað en hafi ekki fengið að fara á sjúkrahús.
Norðurkóreskir embættismenn fylgja verkamönnunum til Rússland og fylgjast náið með þeim til að tryggja að þeir flýi ekki úr gámunum sem þeir eru látnir búa í.
Mánaðarlaun verkamannanna eru sem svarar til 13.000 til 26.000 íslenskra króna eftir að búið er að draga stærsta hluta þeirra af þeim, sá hluti launanna rennur beint til einræðisstjórnarinnar í Norður-Kóreu.
Þeir fá launin ekki fyrr en þeir snúa aftur heim.