Kanínur eru ekkert nýmæli í Fort Collins en stökkbreyttar kanínur eru alveg nýtt fyrirbrigði þar í bæ. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, þá eru kanínurnar með einhverskonar fálmara sem standa út frá höfði þeirra og líkama.
Susan Manfield, íbúi í bænum, sagði í samtali við KOSA sjónvarpsstöðina að þetta sé annað árið sem stökkbreyttar kanínur séu í bænum. Hún hafi haldið að þær myndu deyja síðasta vetur en það hafi þær ekki gert.
Fyrstu fréttir af þessum stökkbreyttu kanínum bárust á síðasta ári þegar myndir af þeim voru birtar á Reddit.
Ástæðan fyrir þessu undarlega útliti kanínanna er að þær eru smitaðar af veiru sem nefnist cottontail rabbit papilloma. Hún getur ekki borist í fólk en berst með moskítóflugum og mítlum.