Maður var akandi á leið til Napólí þegar hann veiktist skyndilega. Hann hafði ekki hugmynd um hvað væri að honum og var stefnan sett á sjúkrahús. En þangað komst hann ekki því hann lést í bílnum.
Dánarorsökin var botulismi sem er sjaldgæft form matareitrunar. Bild skýrir frá þessu.
Botulismi getur myndast í niðursoðnum mat og það var einmitt tilfellið með brokkolíið, sem var á samlokunni, sem maðurinn borðaði.
Ítölsk heilbrigðisyfirvöld hafa nú innkallað mikið magn af niðursoðnu brokkolí í olíu.
Níu aðrir, sem borðuð samlokur keyptar í sama matarvagni, liggja nú á sjúkrahúsi og voru tveir í lífshættu við komuna á sjúkrahúsið.
Lögreglan er að rannsaka málið og beinist hún að eiganda matarvagnsins sem og fyrirtækinu sem framleiddi niðursoðna brokkolíið.
Á vefsíðunni doktor.is segir að botulismi sé sjaldgæfur en alvarlegur sjúkdómur sem bakterían Clostridium Botilinum valdi. Bakterían myndar taugaeitur sem truflar boðefni í vöðvum og veldur það vöðvaslappleika sem hefur svo víðtækari áhrif.
Botulismi hefur aðeins þrisvar greinst hér á landi og höfðu öll hin smituðu borðað súrt dilkakjöt eða súrt slátur.