Hinn 66 ára Chris Bourda var á Ofrynio-ströndinni í borginni Kavala ásamt eiginkonu sinni, Michele, 59 ára, þar sem þau nutu lífsins í sólinni. Ekkert hefur spurst til Michele í viku og er Chris ósáttur við vinnubrögð grísku lögreglunnar sem hann segir að hafi sýnt hvarfinu lítinn áhuga.
Chris lýsir því í samtali við Mail Online að hann og Michele hafi fengið sér stuttan sundsprett í sjónum þennan morgun. Því næst hafi Michele farið og náð í nokkrar grískar pönnukökur fyrir þau sem þau borðuðu undir hádegi.
„Hún talaði svo um að við gætum lagt okkur á sólbekkjunum en því miður sofnaði ég fyrst og þegar ég vaknaði var hún horfin,“ segir hann og bætir við að enginn sérstakur aðdragandi hafi verið að hvarfinu. Michele hafi virst hamingjusöm þennan morgun.
„Þegar ég vaknaði athugaði ég hvort hún hefði farið á klósettið en hún var ekki þar. Ég fór því næst að sjónum til að athuga hvort hún hefði farið þangað en ég sá hana hvergi,“ segir hann.
Hann segist hafa rætt við barþjón á svæðinu og hann hafi í fyrstu hlegið þegar hann spurði hvort hann vissi um eiginkonu hans. „Það var ekki fyrr en ég sagði honum að hún hefði áður glímt við andleg veikindi að hann áttaði sig á alvarleika málsins.“
Chris segir að lögregla hafi komið á vettvang tveimur tímum eftir að kallað var eftir aðstoð. Enginn lögreglumaður hafi haft fyrir því að taka þátt í leitinni á ströndinni og þá hafi hvorki hundar né drónar verið notaðir þó vika sé liðin frá hvarfinu. Bátar hafi verið notaðir seint á kvöldin og snemma á morgnana, líklega til að trufla ekki aðra ferðamenn á svæðinu.
Hann vandar grísku lögreglunni ekki kveðjurnar og segir að þeir leggi sig fram við að gera sem minnst. „Þegar ég kom á lögreglustöðina í vikunni sátu þar fimm lögreglumenn og voru allir í símunum sínum.“
Chris hefur því þurft að leita að eiginkonu sinni einn að mestu þar sem litla hjálp virðist vera að fá frá grískum yfirvöldum. „Ég hef ekki sofið í viku. Ég hef leitað dag og nótt,“ segir hann.
Chris telur ólíklegt að einhver hafi numið Michele á brott og rifjar upp að hún hafi gengið í gegnum tímabil þunglyndis á síðustu árum, nú síðast í febrúar, en hún hafi verið á uppleið síðustu vikur og þennan morgun hafi allt virst vera í lagi.
Chris og Michele hafa verið gift í 36 ár en þau kynntust í Þýskalandi þar sem þau stunduðu bæði háskólanám.
Í samtali við Mail Online segist Chris hafa leitað til breska sendiráðsins í Grikklandi í vikunni og þar hafi honum verið bent á hóp sjálfboðaliða sem aðstoða í málum sem þessum. Hópurinn sé væntanlegur til Kavala um helgina til að taka þátt í leitinni.