Nú hefur Daily Mail birt myndband af atvikinu en á því má sjá þegar Richardson ýtir Coleman ítrekað og nokkuð kröftuglega – þar á meðal upp að vegg í eitt skiptið. Þá virðist hún kasta einhverju í Coleman, sennilega heyrnartólunum sínum, áður en hún gengur burt. Loks má sjá upptöku af því þegar Coleman sést ræða við lögreglumenn á flugvellinum.
Að sögn lögreglu sagði Richardson að rifrildi milli þeirra hefðu byrjað þegar Coleman tók af henni heyrnartól. Sagði hún að aðeins hefði verið um rifrildi að ræða en ekki líkamleg átök.
Svo fór þó að lokum að Richardson var handtekin og kærð fyrir líkamsárás og var hún í haldi lögreglu í 18 klukkustundir þar til henni var sleppt.
Coleman tjáði sig um málið í vikunni og gerði lítið úr atvikinu. „Þetta var leiðinleg uppákoma,“ sagði hann og bætti við að hann væri þeirrar skoðunar að óþarfi hafi verið að handtaka Richardson vegna málsins. Sagði hann að Richardson hefði verið undir miklu álagi á árinu og hún væri mannleg eftir allt saman.
Richardson fékk silfurverðlaun í 100 metra spretthlaupi á Ólympíuleikunum í París í fyrra og var svo í sigurliði Bandaríkjanna í 4×100 metra boðhlaupi.