Kona nokkur hefur fengið formlega afsökunarbeiðni frá skammtímaleigumiðluninni Airbnb eftir að leigusali lagði fram falska bótakröfu. Leigusalinn hafði krafið konuna um tvær milljónir í bætur fyrir meintar skemmdir en konan segir að myndirnar sem áttu að sýna tjónið séu falsaðar.
Airbnb segist nú vera að skoða verkferla og hefur endurgreitt konunni gistinguna. The Guardian greinir frá.
Konan, sem býr í London, hafði bókað sér tveggja herbergja íbúð á Manhattan í New York fyrir 10 vikna dvöl á meðan hún væri við nám í Bandaríkjunum. Hún endaði þó með að yfirgefa íbúðina fyrr en áætlað var þar sem hún upplifði sig ekki örugga á svæðinu.
Skömmu eftir að hún skilaði íbúðinni af sér fékk hún skilaboð frá leigusalanum sem hélt því fram að hún hefði valdið 2 milljón króna tjóni á íbúðinni og innbúi. Hún hefði sprengt sófaborð, pissað í rúmdýnuna, eyðilagt ryksuguvélmenni, sófa, örbylgjuöfn, sjónvarp og loftkælingu.
Þessu til sönnunar lagði hann fram myndir af meintu tjóni.
Konan kannaðist þó ekkert við þessar skemmdir. Hún hafi skilið við íbúðina í sama ástandi og hún tók við henni og aðeins fengið tvo gesti til sín á þeim 7 vikum sem hún eyddi í íbúðinni. Þegar konan skoðaði myndirnar af meintum skemmdum tók hún eftir því að maðkur væri í mysunni. Sprungunni á sófaborðinu hafði greinilega verið bætt inn með gervigreind eða myndvinnsluforriti.
Telur konan líklegt að leigusalinn sé að reyna að ná sér niður á henni fyrir að hafa stytt dvöl sína.
Málið endaði á borðinu hjá Airbnb sem krafðist þess fyrst að konan greiddi 900 þúsund krónur í bætur til leigusalans. Konan áfrýjaði þessari niðurstöðu.
„Ég tilkynnti þeim að ég gæti lagt fram vitnisburð frá sjónarvotti sem var með mér þegar ég skilaði íbúðinni af mér og gat vitnað til um ástandið sem eignin var í: hrein, óskemmd og allt í röð og reglu.“
Konan gat einnig sýnt að átt hefði verið við myndirnar sem leigusalinn sendi. Í raun hefði Airbnb átt að taka eftir þessu undir eins.
Eftir að konan leitaði til The Guardian reyndi Airbnb að draga í land. Fyrst buðu þeir henni rúmlega 80 þúsund króna afslátt í formi inneignar. Síðan buðu þeir henni sömu fjárhæð í endurgreiðslu. Loks buðu þeir henni fulla endurgreiðslu og tóku niður neikvæða umsögn sem leigusalinn hafði gefið henni á vefsíðu Airbnb. Eins hefur leigusalinn fengið áminningu og verður settur í bann ef hann brýtur aftur af sér.