Þingkona Repúblikana, Marjorie Taylor Greene, hefur sent Donald Trump Bandaríkjaforseta viðvörun. Viðvörunina sendir hún undir rós og tekur ekki nákvæmlega fram við hvað er átt en af samhengingu má ráða að þarna vísar Greene til þess hvernig Trump hefur nálgast málefni níðingsins Jeffrey Epstein undanfarið.
Greene skrifar á X að fyrst Trump hafi fullyrt við kjósendur sína að í Bandaríkjunum hafi djúpríkið framið glæpi sem jaðra við landráð, haft afskipti af lýðræðislegum kosningum og kúgað aðra til að ná fram vilja sínum. Eins hafi hann fullyrt að til staðar væri leynilegur hópur fólks innan bandarísku elítunnar með gífurleg völd. Í ljósi þessara fullyrðinga þá beri forsetanum skylda til að stöðva þessa óvini þjóðar sinnar.
„Ef ekki þá mun grasrótin snúast gegn þér og þá verður ekki aftur snúið. Að veifa litlum bitum af rauðu kjöti dugar ekki lengur til. Grasrótin vill steikarkvöldverð og mun ekki samþykkja nokkuð annað.“
If you tell the base of people, who support you, of deep state treasonous crimes, election interference, blackmail, and rich powerful elite evil cabals, then you must take down every enemy of The People.
If not.
The base will turn and there’s no going back.
Dangling bits of…
— Rep. Marjorie Taylor Greene🇺🇸 (@RepMTG) July 21, 2025
Líklega er þingkonan þarna að skora á forsetann að birta öll skjöl í tengslum við rannsókn lögreglu á glæpum Epsteins. Það dugi ekki lengur að birta bara valin skjöl úr því mikla safni.
Greene sagði í samtali við CNN fyrr í þessum mánuði:
„Þetta er bara rauða línan sem hefur verið farið yfir í augum margra: Jeffrey Epstein er bókstaflega þekktasti dæmdi barnaníðingur í dag. Þetta er mál sem hefur verið rætt af mörgum sem gegna nú embættum í ríkisstjórninni, þar með talið af mér og öðrum bæði á hægri og vinstri væng stjórnmálanna – að það þurfi að vera gagnsæi hvað varðar þá ríku og valdamiklu elítur sem voru í kringum hann þegar hann var einn versti raðníðingur ungra kvenna.“
Greene sagði einnig í samtali við The New York Times að hún væri ekki sátt með Trump hvað þetta mál varðar. „Ég samþykki ekki hvernig hann er að tækla þetta og ég held að enginn ætti að gera það.“