Warner er áttræður að aldri og er best þekkur fyrir að hafa stofnað fyrirtækið Ty Inc. árið 1986. Árið 1993 hóf fyrirtækið sölu á Beanie Babies, mjúkum leikföngum sem nutu gríðarlegra vinsælda á sínum tíma. Hann fjárfesti síðar í lúxuseignum, þar á meðal Four Seasons-hótelinu í New York og hótelum og golfvöllum í Kaliforníu, Havaí og Mexíkó.
Lögregla var kölluð að heimili hans í Montecito á miðvikudag í síðustu viku og þegar hún kom á vettvang var kona fyrir utan húsið með mikla áverka og karlmaður innandyra sem var læstur inni á baðherbergi. Hann reyndi að stökkva út um glugga á annarri hæð hússins en var handtekinn af laganna vörðum sem mættir voru á vettvang.
Warner var heima þegar atvikið átti sér stað en grunur leikur á að maðurinn, hinn 42 ára gamli Russell Maxwell Phay, hafi ætlað að brjótast inn og verið að falast eftir verðmætum. Talið er að hann hafi ráðist á konuna, Lindu Malek-Aslanian, sem er sextug, og starfaði fyrir Warner.
Phay hefur verið ákærður fyrir innbrot, líkamsárás og tilraun til manndráps og gæti hann átt þungan dóm yfir höfði sér. Lindu er haldið sofandi og mun vera með áverka á heila. Warner slasaðist ekki.