Lauren Ingrid Flanigan, 32 ára gömul, hefur verið ákærð fyrir morðið á þriggja ára dóttur sinni, Sophie Ruane.
Þann 26. maí 2025 mætti lögregla á vettvang í Moore Park Beach, Queensland, Ástralíu, og fann Sophie litlu með mörg stungusár í garðinum fyrir framan fjölskylduheimilið. Endurlífgunartilraunir báru engan árangur og lést stúlkan á vettvangi.
Tvær yngri systur Sophiu, eins og tveggja ára, voru inni í húsinu á meðan morðið var framið en sluppu ómeiddar. Þær eru nú í umsjá fjölskyldumeðlima. Lauren var handtekin á staðnum en faðirinn, MMA bardagakappinn Jai Ruane, var í vinnuferð þegar hans versta martröð átti sér stað. Hann hefur nú skilað sér heim og sagði að Sophia hafi verið „ljósið í lífi hans, alltaf brosandi, lífsglöð og umhyggjusöm.“
Óhugnanleg skilaboð
Lauren hafði verið virk á samfélagsmiðlum mánuðina fyrir morðið og deilt frekar óhugnanlegum færslum, sérstaklega í ljósi þess sem hún endaði með að gera. Færslurnar innihéldu trúarlegar og tilfinningaþrungnar hugleiðingar, hún talaði um að vera „stríðsmaður ljóssins“ og að Guð væri að kalla „her sinn fram úr felum.“
Umræddar færslur hafa vakið athygli í tengslum við rannsókn málsins. Í einni færslunni má sjá myndir af henni með marbletti víðs vegar um líkamann, eins og einhver hafi barið hana illa. Netverjar eru með ótal kenningar á sveimi um hvað hafi gerst en rannsókn er á byrjunarstigi.