Maðurinn sem um ræðir heitir Grant Hardin en hann var lögreglustjóri í smábænum Gateway áður en hann var handtekinn árið 2017 vegna gruns um morð. Hann skaut mág sinn til bana í febrúar það ár og játaði glæpinn á sig í réttarhöldum sem fram fóru í október 2017. Fyrir þann glæp fékk hann 30 ára fangelsisdóm.
Hann var svo dæmdur í 50 ára fangelsi til viðbótar árið 2019 fyrir nauðgun sem hann framdi árið 1997. Ekki komst upp um þann glæp fyrr en lögregla endurskoðaði DNA-sýni sem tekið var á vettvangi brotsins og kom það heim og saman við DNA-sýni sem tekið hafði verið úr Hardin.
Ekki liggur fyrir hvernig Hardin tókst að flýja úr haldi en lögregla er með öll spjót úti í leitinni að honum.