Þau þurftu ekki gera annað en að skipta skyndibitanum út fyrir hollari mat og mæta í ræktina til að ná mögnuðum árangri. Breska McGilivrays-fjölskyldan ákvað í sameiningu að gera víðtækar breytingar á lífsstíl sínum og hún sér ekki eftir því.
Breskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið en samanlagt hafa þau Sue, 51 árs, eiginmaðurinn Roy, 56 ára og synirnir Ben (24 ára) og Simon (28) lést um 38 kíló á sex mánuðum.
Áður en þau ákváðu að gera þessar grundvallarbreytingar á lífsstíl sínum spáðu þau ekki mikið í hvað þau létu ofan í sig. Skyndibiti varð jafnan fyrir valinu á kvöldin og þá voru ferðirnar á barinn tíðar þar sem hitaeiningaríku áfengi var skolað niður.
Þetta breyttist þegar fjölskyldan ákvað í sameiningu að velja hollari mat og mæta í ræktina. Það getur verið gott að hafa góðan stuðning þegar ráðist er í svo róttækar lífstílsbreytingar og höfðu fjórmenningarnir góðan stuðning frá hvort öðru – enda markmiðið það sama.
Á þeim sex mánuðum sem liðnir eru hefur Sue lést um 22,2 kíló, Roy 12,7 kíló og Ben og Simon hafa lést um sex kíló samtals. Eins og myndirnar bera með sér eru þau öll nokkuð stæltari en þau voru áður.
Það var Sue sem reið á vaðið enda hafði móðir hennar látist úr sjúkdómi sem rakinn var til sykursýki sem hún glímdi við. Sue vildi ekki hljóta sömu örlög og ákvað að breyta til. Árangurinn lét ekki á sér standa og til að sýna Sue stuðning ákváðu þeir Roy, Ben og Simon að breyta lífsstíl sínum. Síðan þá hefur McGilivrays-fjölskyldan ekki litið um öxl og er hvergi nærri hætt.