Flóð sem komu að jafnaði einu sinni á öld munu koma á hverju ári áður en árið 2050 gengur í garð. Þetta er samkvæmt svartri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem komin er út.
Þetta er raunveruleikinn jafnvel þó markmið um takmörkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda náist. Skýrslan leiðir einnig í ljós að ýmsar afleiðingar hlýnunar jarðar séu óafturkræfar; þannig sé það staðreynd að fleiri öflug óveður munu ganga yfir og sífreri muni þiðna. Þá eru ótalin neikvæð áhrif á sjávarlífverur.
Í skýrslunni, sem unnin var af fjölda sérfræðinga, kemur fram að enn sé hægt að draga úr þessum neikvæðu afleiðingum þó ekki sé hægt að koma í veg fyrir þær. Einn af lykilþáttunum sé að draga úr útblæstri af völdum jarðefnaeldsneytis en þannig megi koma í veg fyrir enn meiri hækkun yfirborðs sjávar.
Í skýrslunni er bent á það að um tveir milljarðar manna í heiminum búi við strendur. Fari svo að það takist að halda hlýnun jarðar í tveimur gráðum á næstu áratugum verða afleiðingarnar samt sem áður mjög alvarlegar. Þannig verði flóð algengari með tilheyrandi tjóni og milljónir þurfi að yfirgefa heimili sín. Með hækkun yfirborðs sjávar og meiri öfgum í veðurfari munu flóð verða miklu algengari en áður eins og bent er á hér að framan.