Það gengur í raun kraftaverki næst að kvikmyndin Amazing Grace sé til yfir höfuð. Myndin var tekin árið 1972 en tæp 47 ár liðu þar til hún kom fyrir sjónir almennings. Hér er um að ræða heimildarmynd um tónleika sem Aretha Franklin hélt í New Temple Missionary baptistakirkjunni í Los Angeles.
Það var leikstjórinn Sydney Pollack sem átti veg og vanda af myndinni á sínum tíma. Þarna var Aretha Franklin á hátindi ferils síns en upptökurnar voru notaðar fyrir plötuna Amazing Grace sem kom út sumarið 1972. Ástæðan fyrir því að myndin var ekki kláruð og kom ekki fyrir sjónir almennings var sú að tæknileg mistök voru gerð við tökurnar. Tökuliðið hafði gleymt að notast við svokallað klapptré (e. Clapperboard) sem gerði það að verkum að hljóð og mynd fóru ekki saman.
Upptakan lá óhreyfð í hvelfingu Warner Bros svo árum skiptir, eða allt þar til framleiðandinn Alan Elliott keypti upptökuna. Hann var tíu ár að lagfæra myndina og kom hún loksins út nýlega.
Þó Elliott hafi tekist að klára myndina gekk ekki þrautalaust að koma henni út. Aretha Franklin, sem lést fyrir rétt rúmu ári, var mótfallin því að hún kæmi út. Elliott segir við ástralska fjölmiðla – en myndin var frumsýnd þar í vikunni – að hann hafi verið sorgmæddur vegna afstöðu Arethu. Hún útskýrði aldrei hvers vegna hún var mótfallin því að myndin kæmi út.
„Þetta var eins og einhvers konar freudísk martröð þar sem maður spyr móður sína hvers vegna hún elskar mann ekki. Þessi mynd er einskonar ástarbréf til hennar,“ segir hann við News.com.au. Elliott segir hugsanlegt að Aretha hafi ekki viljað að myndin kæmi út því á þessum tíma glímdi hún við erfið veikindi sem drógu hana að lokum til dauða. Eftir andlát Arethu gáfu aðstandendur hennar grænt ljós á að myndin yrði sýnd.
Óhætt er að segja að myndin hafi fengið einróma lof gagnrýnenda. Þannig hafa virtir fjölmiðlar á borð við Rolling Stone, Los Angeles Times, The Guardian, Seattle Times, Washington Post, New York Times og Variety allir gefið henni fullt hús. Sýnishorn úr myndinni má sjá hér að neðan.