Upphaf málsins má rekja til notkunar Stephan á vefsíðunni boyfriend.dk. Þar stofnaði hann falskan prófíl í byrjun maí á síðasta ári. Hann notaði mynd af konu, sem bjó á sömu heimavist og hann í Esbjerg, í prófílnum. Hann valdi prófílnafnið „Nýneminn“ og setti margar myndir af konunni en hún vissi ekkert um þetta. Myndirnar fann hann á Facebooksíðu hennar.
JydskeVestkysten skýrir frá þessu. Samkvæmt því sem Stephan skrifaði á prófílinn þá var konan, sem er 22 ára, að leita að konum til að stunda kynlíf með sem og reynslumiklum körlum til að taka þátt í nauðgunarlíku kynlífi. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Stephan gerði eitthvað þessu líkt.
Fyrir dómi sagði hann að hann hefði búið til marga falska prófíla á stefnumótasíðum því honum finnist spennandi og gaman að tala við annað fólk og skiptast á fantasíum. Hann sagðist alltaf hafa hætt og dregið sig út úr þessu þegar samskiptin voru komin á það stig að hinir aðilarnir vildu fara að hitta hann.
En í þessu máli hætti hann ekki og atburðarrásin hélt áfram. 25. maí kom Stephan á stefnumóti á milli konunnar, sem vissi auðvitað ekkert um málið, og manns frá Fjóni. Sammælst var um að þau myndu stunda nauðgunarlíkt kynlíf. Stephan lét manninum rétt heimilisfang konunnar í té. Næsta dag ók maðurinn frá Fjóni að heimavistinni í Esbjerg og knúði dyra hjá konunni.
Sem betur fer var hún sofandi og fór því ekki til dyra. Hún svaraði heldur ekki þegar hann hringdi í hana.
„Næsta morgun fékk ég sms og skilaboð á Facebook frá ókunnugum manni sem hélt að við hefðum verið búin að ákveða að stunda nauðgunarlíkt kynlíf. Þetta var svo óraunverulegt.“
Sagði konan fyrir dómi.
Þegar hún fann út hvað hafði gerst kærði hún málið til lögreglunnar.
Saksóknari lagði áherslu á að það hafi nánast verið heppni að unga konan og maðurinn frá Fjóni hittust ekki því þá hefði nauðgun kannski orðið niðurstaðan.
Eins og fyrr segir var Stephan dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi. Maðurinn frá Fjóni var ekki ákærður þar sem hann gerði ekkert af sér og taldi raunar að hann væri að fara að stunda kynlíf með ungu konunni með hennar samþykki.