Heiðruðu látinn félaga sinn
Henry Rosario Martinez, 31 árs karlmaður frá Puerto Rico, lést þann 19. janúar síðastliðinn. Henry þótti fátt skemmtilegra en að spila póker og ákváðu vinir hans að heiðra látinn félaga með því að spila póker með honum í síðasta skiptið.
Vel varðveittu líkinu var komið fyrir við pókerborðið og fékk Henry spil í hönd. Tilfinningaþrungið myndband var svo birt á samfélagsmiðlum sem má sjá í fréttinni hér að neðan. Ekki liggur fyrir hver dánarorsökin var, en fjölmiðlar í Puerto Rico hafa látið að því liggja að Henry hafi svipt sig lífi.
Það var faðir Henry sem tók þá ákvörðun að reyna að varðveita líkið svo hægt væri að koma því fyrir – í sitjandi stöðu – við pókerborðið. Hafði hann samband við forsvarsmann útfararstofu á Puerto Rico, Jose Mendelez, sem viðurkennir að beiðnin hafi verið nokkuð óvenjuleg.
„Þetta er í fyrsta skipti sem við gerum eitthvað þessu líkt. En þetta hefur áður verið gert á öðrum útfararstofum,“ segir Jose, en Henry var klæddur í föt og bar sólgleraugu. Vinirnir settust svo við borðið og spiluðu póker, látnum félaga til heiðurs.