„Stóru-sleggjunni var ekki beitt gegn vöxtum og verðbólgu – heldur gegn íslensku verkafólki! Ríkisstjórnin kynnti fjárlög með 13 milljarða króna hagræðingu. Það er selt sem ábyrg fjármálastjórn – en þegar rýnt er í tölurnar blasir önnur mynd við,“ segir Vilhjálmur í pistli á Facebook-síðu sinni þar sem hann fer nánar yfir málið:
„Framlag til jöfnunar á örorkubyrði, 4,6 milljarðar, er afnumið. Það er 34,6% af allri hagræðingunni og bitnar harkalega á íslensku verkafólki í formi skerðingar á ellilífeyri og réttindaávinnslu. Atvinnuleysisbótatímabilið er stytt og ríkið sparar 6 milljarða. Það er 46,2% af hagræðingunni og lendir á fólki sem hefur misst vinnuna,“ segir hann og bætir við að barnabætur haldi enn fremur ekki raungildi sínu. Fjölskyldur fái sömu krónutölu en minna í raun vegna verðbólgu.
Hann segir að hagræðingin nemi 13 milljörðum en í það minnsta 10,6 milljarðar, eða 80% af heildinni, bitni af fullum þunga á verkafólki, atvinnulausum og þeim sem höllum fæti standa.
„Er þetta félagshyggja? Nei.
Er þetta réttlæti? Nei.
Er þetta jöfnuður? Nei.
Forsætisráðherra sagðist ætla að beita sleggju á verðbólguna og vextina. En þegar til kastanna kom var stórasleggjan reidd hátt til lofts – og hún lenti á íslensku verkafólki og þeim sem verst standa.“