Stóru leikhúsin kynna dagskrá vetrarins um þessar mundir – Leikárið 2016 – Þetta segja leikhússtjórarnir
Um þessar mundir eru dagskrárbæklingar atvinnuleikhúsanna fyrir komandi leikár að renna út úr prentsmiðjum og markaðsdeildir keyra á yfirsnúningi við að auglýsa og sannfæra mögulega leikhúsgesti um að dagskráin hafi aldrei verið betri. DV kíkti á hvað verður í boði í leikhúsum landsins og sló á þráðinn til fjögurra leikhússtjóra.
Fyrsta frumsýning ársins hjá Þjóðleikhúsinu verður söngleikur byggður á Reykjavíkursögu Einars Kárasonar, Djöflaeyjunni. Upphaflega átti að sýna verkið á síðasta leikári en vegna vinsælda Í hjarta Hróa hattar var frumsýningu frestað fram til 3. september. Atli Rafn Sigurðsson leikstýrir en verkið er unnið í samstarfi við Baltasar Kormák.
Leikgerðir byggðar á skáldsögum verða nokkuð áberandi í þjóðleikhúsinu, tvær sýningar eru byggðar á nýlegum erlendum skáldsögum og þrjár íslenskar skáldsögur verða settar upp, Djöflaeyjan, Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur og Gott fólk eftir Val Grettisson.
„Við leggjum upp með að segja áhugaverðar sögur sem hafa einhverja tengingu við samfélagið í dag – og ef við erum að takast á við eldri verk þá viljum við finna þeim skírskotun í dag,“ segir Ari Matthíasson aðspurður um áherslu leikhússins í verkefnavalinu í ár. Í þessu samhengi nefnir hann allt frá Góðu fólki til Djöflaeyjunnar, Aftur á kreik og Óþelló.
Gullkálfurinn Þorleifur Örn Arnarsson mætir aftur í Þjóðleikhúsið með verk byggt á þýsku Hitler-grínbókinni Aftur á kreik. Þýsk kvikmynd hefur verið unnin upp úr bókinni en nú verður hún í fyrsta skipti sett upp sem sviðsverk. Vesturport átti gott „come-back“ í fyrra með hinni æsilegu fjölskyldusýningu Í hjarta Hróa hattar og Gísli Örn og kompaní munu setja upp jólasýninguna í ár, Óþelló eftir William Shakespeare. Svisslendingurinn Stephan Metz kemur og leikstýrir klassísku verki eftir Arthur Miller, Horft frá brúnni.
Af frumflutningi á íslenskum leikritum er það að frétta að Guðjón Davíð Karlsson, Gói, skrifar nýtt barnaverk, Fjarskaland, fyrir stóra sviðið og mun Selma Björnsdóttir leikstýra. Þá verður í fyrsta skipti sett upp leikritið Húsið eftir eitt helsta leikskáld Íslendinga, Guðmund Steinsson (1925–1996).
Þjóðleikhúsið mun svo ferðast um landið með barnaeinleikinn Lofthræddi örninn Örvar.
Af nýliðum í ábyrgðarmiklum hlutverkum í leikhúsinu segir Ari: „Við erum með tvær glænýjar leikkonur sem eru nýútskrifaðar, það eru Aldís Ama Hamilton sem leikur Desdimónu – eitt stærsta hlutverkið í Óþelló – og svo er það Snæfríður Ingvarsdóttir sem leikur aðalhlutverkið í Fjarskalandi og stór hlutverk í Djöflaeyjunni og Tímaþjófinum. Svo er það Gussi, Gunnar Jónsson, sem hefur ekki leikið áður á sviði í atvinnuleikhúsi en er náttúrlega margverðlaunaður um allan heim.“
Nýjar sýningar: 12
Barnasýningar: 3
Byggt á bók: 5
Nýtt íslenskt leikrit: 3 (ef við teljum frumflutning á gömlu leikriti Guðmundar Steinssonar með)
Erlend saga/verk: 6
Leikstýrt af konu: 5
Áskriftarkort: 4 sýningar á 15.900 krónur
Á síðasta ári sankaði Borgarleikhúsið að sér verðlaunum, bæði á Grímunni og Menningarverðlaunum DV, og þá aðallega fyrir leikgerð Þorleifs Arnar Arnarssonar og Mikaels Torfasonar á Njálu.
„Í fyrra var áhersla lögð á að skoða okkar sögur, bæði í sagnaarfinum eins og í Njálu og samtímasögu eins og í Flóð. Í ár er áherslupunkturinn hins vegar sterk kvenhlutverk og sterkar kvenpersónur. Það er oft talað um að það sé skortur á bitastæðum hlutverkum fyrir konur og við vorum mjög meðvituð um það í verkefnavali ársins. Auk þess erum við svolítið að fjalla um samskipti kynjanna og kynhlutverkin,“ segir Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri og nefnir í því samhengi söngleikinn Ellý og Sölku Völku, en einnig samstarfsverkefnin Hannes og Smári og Hún pabbi.
Ellý er nýr söngleikur Ólafs Egilssonar, Gísla Arnar Garðarssonar og Vesturports, sem er byggður á ævi Ellýar Vilhjálmsdóttur söngkonu. Salka Valka verður hins vegar áramótasýning Borgarleikhússins og verður það lettnesk-bandaríski leikstjórinn Yana Ross sem leikstýrir uppsetningu á þessari klassísku skáldsögu Halldórs Laxness, en hún sló í gegn þegar hún leikstýrði Mávinum eftir Tsjékhov í fyrra. Titilhlutverkið verður í höndum hinnar 25 ára gömlu Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur.
Fyrsta frumsýningin á stóra sviðinu í haust verður Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason og er það stóri barna- og fjölskyldusöngleikur ársins í leikhúsinu. Mary Poppins- og Billy Elliott-leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson stýrir 22 börnum sem munu fljúga um sviðið og Kristjana Stefánsdóttir gerir sönglög við söguna. Þá verður áhugavert að sjá hvernig tekst upp þegar Magnús Geir Þórðarson, Ríkisútvarpsstjóri, snýr aftur í leikhúsið og leikstýrir gamanverkinu Úti að aka eftir farsakónginn Ray Cooney.
Borgarleikhúsið hefur undanfarin ár einnig tekið upp á sína arma tónlistarmenn og gert sýningar tengdar verkum þeirra. Trúðaleikur við tónlist Skálmaldar fyrir tveimur árum og hugguleg kvöldstund með KK í fyrra. Í ár fær rappgjörningalistahópurinn Reykjavíkurdætur lausan tauminn, en nokkrar þeirra eru lærðar sviðslistakonur eða hafa sterk tengsl við leikhúsið.
Kristín segir að leikarahópur Borgarleikhússins sé nokkuð óbreyttur frá því í fyrra en hins vegar verði nokkrir nýir leikstjórar kynntir til leiks. „Dóra Jóhannsdóttir, sem hefur verið að leiða spunasenuna með Improv Ísland mun leikstýra sínu fyrsta verki í Borgarleikhúsinu, Ræman, sem er samtímaverk sem fékk Pulitzer-verðlaunin sem besta leikritið. Marta Nordal hefur ekki verið hérna í langan tíma en hún mun leikstýra nýju verki eftir Bjarna Jónsson, Sending. Svo sýnum við fyrsta leikstjórnarverkefni Ragnheiðar Skúladóttur hjá leikhúsinu, en hún hefur verið listrænn stjórnandi Lókal. Hún leikstýrir Extravaganza, nýju verki eftir Sölku Guðmundsdóttur.“
Nýjar sýningar: 14 (sýningar Íslenska dansflokksins og samstarfssýningar í leikhúsinu þar með taldar)
Barnasýningar: 3
Byggt á bók: 2
Frumsamið íslenskt leikrit: 9
Erlend saga/verk: 3
Leikstýrt af konu: 6
Áskriftarkort: 4 sýningar á 17.900 krónur (netverð 16.500 krónur).
Fyrsta frumsýning ársins á Akureyri verður trúðaleikurinn Helgi magri. „Þetta er kosmísk spunasýning þar sem fjórir trúðar takast á við það sem Matthías Jochumsson kallaði sitt versta verk. Þetta er sögulega leikritið Helgi magri, sem var bara sýnt einu sinni á afmælishátíð hérna á Eyrinni. Það komu 1.200 manns að sjá þetta, en það þótti ekki gott! “ segir Jón Páll Eyjólfsson, sem hefur sitt annað leikár sem leikhússtjóri á Akureyri.
„Hlutverk Menningarfélagsins er ekki bara að framleiða afþreyjandi list heldur að fóstra og næra þá hæfileika sem eru hér í okkar nærumhverfi. Við eigum að gefa ungum höfundum og ungum listamönnum tækifæri til að eiga stefnumót við áhorfendur og sitt samfélag. Og gefa þeim sem eru að gera framsækna hluti stefnumót við Norðlendinga,“ segir hann og nefnir til að mynda Listin að lifa, nýtt frumsamið leikrit eftir leikhópinn Næsta leikrit, sem spratt upp úr leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. Þá nefnir hann brúðuleikhúshópinn Handbendi frá Hvammstanga sem mun sýna tvö verk, en annað þeirra, Tröll, verður frumsýnt á Akureyri.
Akureyrsk saga og samfélag koma svo ekki einungis við sögu í trúðsleiknum heldur einnig í heimildaleikhúsinu Elskur, sem er byggt á ástarbréfum Norðlendinga og Borgarsviðið – leiðsögn þar sem akureyrskar konur af erlendu bergi brotnar veita áhorfendum leiðsögn um akureyrska menningu. „Það skiptir ekki lengur bara máli hvaða sögur við segjum á sviðinu, heldur er næsta skrefið að spyrja sig hver segir sögurnar, hver stendur á sviðinu og leikur,“ segir Jón Páll.
Eigin frumsýningar Menningarfélagsins verða þrjár auk Helga magra, eru það Hannes og Smári, sem er samstarfsýning með Borgarleikhúsinu, en sýningin byggir á alter-egóum leikkvennanna Halldóru Geirharðsdóttur og Ólafíu Hrannar. Þá sýnir Menningarfélagið jólasýninguna Stúfur og stærsta verkefni leikársins er Núnó og Júnía, nýtt íslenskt verk fyrir börn og fjölskyldur. „Það er sama teymi á bakvið þetta og vann Pílu Pínu í fyrra. Þá var brjálæðislega góð miðasala og fullt hús á öllum sýningum,“ segir Jón Páll.
„Við beinum meginhluta þess fjármagns sem við fáum í sýningar fyrir börn og fjölskyldur. Það er skortur á barnaleikhúsi á Íslandi og það hefur verið skortur á því að stóru húsin hafi alltaf sýnt frumkvæði til að framleiða nýtt efni fyrir börn. Það þarf að skrifa og leika nýjar sögur,“ segir hann.
Nýjar sýningar: 6
Barnasýningar: 3
Byggt á bók: 0
Frumsamið íslenskt leikrit: 6
Erlend saga/verk: 0
Leikstýrt af konu: 2
Áskriftarkort: 4 viðburðir hjá Menningarfélagi Akureyrar fyrir 19.900 krónur
Fyrsta frumsýning Tjarnarbíós fór fram í vikunni þegar Stripp eftir Olgu Sonju Thorarensen og leikhópinn Dance For Me var sýnt sem hluti af alþjóðlegu sviðslistahátíðinni Everybody‘s Spectacular.
„Hlutverk Tjarnarbíós er að vera vettvangur fyrir alla atvinnusviðslistahópa á Íslandi. Við bjóðum upp á rými, tækjabúnað, markaðsþjónustu og samstarf að öllu leyti. Hér koma inn allskonar hópar undir sínu nafni en sameinast í húsinu og mynda í raun fyrirbærið Tjarnarbíó,“ segir Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Tjarnarbíós.
„ Verkin sem eru sýnd í Tjarnarbíói eru öll fjármögnuð og búin til að frumkvæði sviðslistamannanna sjálfra, okkar listræna stefna mótast því út frá því framboði af hugmyndum sem eru á kreiki hverju sinni. Við veljum inn verk með það í huga að dagskráin verði eins fjölbreytt og framsækin og mögulegt er. Það er gríðarlegur kraftur í sjálfstæðu senunni núna og færri komust að en vildu“, segir hann.
Meðal leikhópa sem sýna verk í ár eru RaTaTam, Kriðpleir, Pörupiltar, Smartílab, Lab Loki og fleiri. Þá leikstýrir Edda Björg Eyjólfsdóttir nýju leikverki um Þórberg Þórðarson og Þorsteinn Bachmann leikstýrir Pulitzer-verðlaunaverkinu Ayad Akhtar.
„Aðsókn í Tjarnarbíó hefur vaxið um 15 til 20 prósent á milli ára frá 2013 þegar við byrjuðum að fá stuðning frá Reykjavíkurborg. Þessar upphæðir hafa skipt sköpum fyrir gróskuna í sviðslistalífinu í Reykjavík,“ segir Friðrik.
Nýjar sýningar: 14
Barnasýningar: 4
Byggt á bók: 1
Nýtt frumsamið leikriti: 12
Erlend saga/verk: 2
Leikstýrt af konu: 9
Áskriftarkort: 4 sýningar fyrir 12.000 krónur