Um þessar mundir eru 50 ár liðin frá því að Dagblaðið var stofnað, en miðillinn er einn þeirra sem mynda stoðir DV.is vorra tíma.
Þegar uppruni DV.is er rakinn kemur glögglega í ljós þróun fjölmiðlunar og sumpart hversu erfitt rekstrarumhverfi einkarekinna miðla hér á landi.
Á vef DV.is er sagan rakin. Stuðst var þar við ritið Nýjustu fréttir: Saga fjölmiðlunar á Íslandi frá upphafi til vorra daga, frá árinu 2000 eftir Guðjón Friðriksson, sagnfræðing.
DV er elsta dagblað landsins, runnið af rót Vísis sem stofnaður var árið 1910 sem óháð frétta- og auglýsingablað fyrir Reykvíkinga. Einar Gunnarsson stofnaði blaðið og lenti fljótlega í harðri samkeppni við Morgunblaðið, sem var í eigu kaupmanna. Lengi var Vísir síðdegisblað, sem nánast eingöngu var lesið í Reykjavík. Blaðið hallaðist að Sjálfstæðisflokknum í landsmálum á ritstjórnartíma Jakobs Möller og Kristjáns Guðlaugssonar. Engu að síður var blaðið áratugum saman fyrst og fremst bæjarblað með heimafréttum og smáauglýsingum.
Jónas Kristjánsson varð ritstjóri árið 1967 og tók Vísir þá að fjarlægjast flokkspólitík. Blaðið varð landsblað og tekin voru upp vinnubrögð, sem tíðkuðust á erlendum fréttamiðlum. Reglubundnar skoðanakannanir hófust árið eftir. Útbreiðsla blaðsins jókst mikið á árunum 1967-1975 og afkoma blaðsins með ágætum. Samt var ágreiningur vaxandi milli ritstjórans og meirihluta stjórnar útgáfufélags Vísis um flokkspólitík.
Beint eða óbeint leiddi það til þess að Dagblaðið var stofnað 1975. Hið nýja dagblað var til húsa við hliðina á Vísi, að Síðumúla 12. Jónas var ritstjóri Dagblaðsins og Þorsteinn Pálsson var ritstjóri Vísis. Kjallaragreinar með fjölbreyttum sjónarmiðum komu til sögunnar. Dagblaðið hóf rekstur menningarverðlauna árið 1978.
Þessi blöð voru svo sameinuð aftur árið 1981 og urðu þá Jónas og Ellert B. Schram saman ritstjórar. Nafn sameinaða blaðsins var DV. Það var óháð stjórnmálaflokkum og varð strax eitt áhrifamesta blað landsins. Árið 1983 var lestur DV kominn í 64%, meðan Morgunblaðið var í 70%. DV var á þeim tímum dreift um land allt.
Sérhannað blaðhús var reist fyrir DV í Þverholti 11 og fluttist fyrirtækið þangað árið 1985. Jafnframt var fyrsta tölvukerfið tekið í notkun við vinnslu blaðsins. Blaðið var fjárhagslega traust í tvo áratugi, 1981-2001, og lagði aukinn kostnað í umfangsmeiri útgáfu. Árið 2001 var blaðið síðan selt nýjum eigendum og blaðið færðist nær Sjálfstæðisflokknum að nýju. Blaðið var flutt í Skaftahlíð 24, er hafði verið innréttað sem blaðhús. Reksturinn gekk illa og varð útgáfufélagið gjaldþrota árið 2003. DV kom þá ekki út í nokkrar vikur.
Sama ár var DV endurvakið af nýjum eigendum og þá sem morgunblað. Reksturinn gekk erfiðlega, enda höfðu ábatasamir tekjuþættir svo sem smáauglýsingar að mestu horfnar. Til að bregðast við erfiðleikunum varð blaðið vikublað árið 2006. Síðan var það endurreist sem dagblað í upphafi árs 2007 í nýju útgáfufélagi.
Í mars 2010 var DV keypti dreifður hópur reksturinn. Eftir átök í hluthafahópi sem stóðu stóran hluta árs 2014, tóku lánadrottnar félagsins það yfir.
Pressan ehf. eignaðist svo stærstan hlut í DV ehf síðla árs 2014.
Frjáls fjölmiðlun ehf. keypti útgáfurétt DV í september 2017 og tók formlega við stjórnartaumunum 1. október 2017. Árið 2019 tók Torg ehf. í eigu Helga Magnússonar við rekstri DV og árið 2023 varð Fjölmiðlatorgið ehf. útgáfufélag DV.is.
DV.is er nú og hefur verið um langa hríð þriðji mestlesni fréttavefur landsins.
Enn eiga orð Jónasar Kristjánssonar, fyrsta ritstjóra Dagblaðiðsins við, sem birtust í fyrsta leiðara blaðsins:
„Við höfum aðstöðu til að gefa út ábyrgt og skemmtilegt blað, heiðarlegt og fjörugt blað, og ætlum að spreyta okkur á því.“
Þróun í íslenskri fjölmiðlun heldur áfram þótt þessum tímamótum hafi verið náð. DV.is er nú gefið út á netinu og speglar þannig hvort tveggja nýja tíma og viðbrögð við helstu áskorun prentmiðla: nefnilega að prentformið er fokdýrt og óþjált. Það á við um prentunina og ekki síður dreifingu.
Ritstjóri og ábyrgðarmaður DV.is er Björn Þorfinnsson.