fbpx
Sunnudagur 21.september 2025
Eyjan

Björn Jón skrifar: Hálf öld frá stofnun Dagblaðsins

Eyjan
Sunnudaginn 21. september 2025 15:00

Jónas Kristjánsson og Sveinn R. Eyjólfsson glugga í fyrsta eintak Dagblaðsins — glóðvolgt úr prentvélinni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú í september er liðin hálf öld frá stofnun Dagblaðsins sem markaði þáttaskil í íslenskri fjölmiðlasögu. En fyrir réttum áratug — á 40 ára afmæli blaðsins — var sá sem hér heldur á penna fenginn til að ritstýra sérstöku afmælisblaði sem fylgdi með DV. Mig langar aðeins að vitna í það blað hér og líka til ævisögu Sveins R. Eyjólfssonar blaðaútgefanda sem Silja Aðalsteinsdóttir skráði og út kom 2017 en sú bók er lykilheimild um íslenska fjölmiðlasögu.

Sveinn var einn af yfirmönnum Skeljungs þegar honum var boðin staða framkvæmdastjóra síðdegisblaðsins Vísis árið 1968. Ýmsir höfðu gegnt því starfi árin á undan en orðið frá að hverfa. Það virtist óvinnandi vegur að rétta við fjárhag blaðsins. Samt sló Sveinn til en á Vísi var fyrir nýráðinn ritstjóri, Jónas Kristjánsson, æskuvinur Sveins. Í sameiningu gerðu þeir blaðið á stórveldi á fáum misserum og miklum taprekstri var snúið í hagnað.

Sveinn var hugsjónamaður um margt og til að mynda afþakkaði hann ríkisstyrk til blaðsins sem fólst í því að Stjórnarráðið var áskrifandi að 600 eintökum sem fóru upp í Arnarhvol og var dreift þaðan á ríkisstofnanir. Í kjölfarið gætti Sveinn þess að blaðsölufólkið seldi blöðin við opinberar stofnanir og það rauk út. Með þessu var sjálfstæði blaðsins áréttað og á sama tíma var ákveðið að Jónas Kristjánsson hætti að sitja þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks. Það undirstrikaði enn frekar sjálfstæðið.

Í áðurnefndu afmælisblaði birtist viðtal sem ég átti við Jónas Kristjánsson og hann lýsti því fyrir mér hvernig Vísir var gerður að óháðum fjölmiðli:

„Við vorum að fjarlægja blaðið frá Sjálfstæðisflokknum, enda ekki hægt að gefa út dagblað á forsendum stjórnmálaflokka. Slíkt er ávísun á gjaldþrot. Á löngum tíma færðum við okkur inn á braut óháðs fréttaflutnings og fyrir því voru viðskiptalegar forsendur. Við þetta jukust átökin um blaðið. Raunar hafði Vísir byrjað á sínum tíma sem óháð blað, en kaupmenn í Reykjavík tóku hann síðar yfir og gerðu að sínum.“

Jónas skrifaði mergjaða ritstjórnarpistla þar sem stungið var á kýlum samfélagsins. Ekki síst gagnrýndi hann styrkjakerfi landbúnaðarins og hlaut Sveinn mikið ónæði af þeim skrifum. Svo fór að meirihluti útgáfufélags Vísis ákvað að segja Jónasi upp störfum. Við svo búið gekk Sveinn líka út. Grípum niður í frásögn hans í endurminningunum:

„Í mínum huga var algjörlega útilokað að svíkja Jónas, náinn samstarfsmann og félaga í endurreisn og uppbyggingu þessa fyrirtækis. Slíkur ódrengskapur fyrirfannst ekki í minni orðabók, sama hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir persónulega hagi mína og fjölskyldu minnar.“

Úr varð að Jónas og Sveinn stofnuðu nýtt síðdegisblað í samkeppni við Vísi og hlaut það nafnið Dagblaðið. Þegar ég setti saman afmælisblaðið fyrir áratug fékk ég fimm frumkvöðla blaðsins til að setjast niður með mér í hringborðsumræður, þá Svein R. framkvæmdastjóra blaðsins, Jóhannes Reykdal útlitsteiknara, Jón Birgi Pétursson fréttastjóra, Sigurð Hreiðar blaðamann og Má Halldórsson afgreiðslustjóra.

Þar rifjuðu þeir félagar margt upp, til dæmis sagði Jón Birgir frá því þegar aprílgabbið var að tékkneski stórmeistarinn Vlastimil Hort léki fjöltefli síðar þann daginn. En þá hefði kviknað sú hugmynd að gera alvöru úr gabbinu — og Hort kom hingað til lands og haldið var fimm hundruð manna fjöltefli Dagblaðsins. Blaðið var frumkvöðull í umfjöllun um neytendamál og bíla, vettvangur fjörmikilla lesendabréfa (eins konar athugasemdakerfis þess tíma) og smáauglýsingar fylltu fjórar blaðsíður þegar mest var. Lögð var áhersla á vandað málfar, en blaðið var sérlega vel prófarkalesið af íslenskufræðingum og þá voru fréttir skýrar og á mannamáli. Jón Birgir orðaði það svo að þeir hefðu „afruglað“ fréttir hinna blaðanna.

Dagblaðið kom út rétt upp úr hádegi og blaðsöludrengirnir mættu sumir aftur og aftur í afgreiðsluna til að sækja aukaskammt af blaðinu og sturtuðu peningunum á borðið eins og Már lýsti því í viðtalinu. Sveinn sagði að þarna hafi fæðst margir bisnessmenn framtíðarinnar. En áskrifendum fjölgaði líka hratt. Þeir voru um 4500 í byrjun en fóru brátt í 16 þúsund. Sigurður Hreiðar nefndi í áðurnefndu viðtali einstaka vinnugleði á Dagblaðinu þar sem myndast hefði þéttur vinskapur og Jón Birgir bætti því við að menn hefðu oft ekki fengist til að fara heim. Við lá að næturvörður á skrifstofunni fengi slag þegar hann gekk einhverju sinni fram á blaðamann sofandi á ritstjórnarskrifstofunni!

Jónas lýsti fyrir mér hvernig þjóðfélagsumræðan hefði breyst með Dagblaðinu — þar hefði ekki verið að finna þær pólitísku greinar sem fólk var vant:

„Kjallaragreinarnar voru takmarkaðar við hálfa síðu og þessu var ritstýrt. Svo tókum við neytendamálin fyrir og Haukur Helgason hagfræðingur skrifaði um efnahagsmálin á mannamáli. Þarna voru margir góðir blaðamenn og við tókum jafnvel róna af götunni, þurrkuðum þá upp og gerðum að blaðamönnum. Það þarf doldið skrýtna einstaklinga í blaðamennsku. Ýmsir sem voru hjá okkur hefðu ekki getað unnið venjulega skrifstofuvinnu frá klukkan níu til fimm. Fólk sem er smáskrýtið gerir hluti sem breyta heiminum.“

Tilkoma Dagblaðsins breytti þjóðfélagsumræðunni til frambúðar. Hún varð opnari og gagnrýnni en verið hafði og DV tók við keflinu eftir að síðdegisblöðin tvö, Vísir og Dagblaðið, voru sameinuð árið 1981. DV verður framhald af Dagblaðinu og lifir enn góðu lífi sem öflugur vefmiðill.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hildur slær á létta strengi eftir atvik í gær – „Ef ég var einhvern tímann að íhuga að kippa lýðveldinu úr sambandi“

Hildur slær á létta strengi eftir atvik í gær – „Ef ég var einhvern tímann að íhuga að kippa lýðveldinu úr sambandi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Menningarstríðið er völundarhús

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Menningarstríðið er völundarhús
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Framkvæmdastjóri N1: Skortur innviða flöskuháls fyrir rafvæðingu bílaflotans

Framkvæmdastjóri N1: Skortur innviða flöskuháls fyrir rafvæðingu bílaflotans
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þórdís Lóa ætlar ekki að bjóða sig fram í næstu kosningum

Þórdís Lóa ætlar ekki að bjóða sig fram í næstu kosningum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Morfís útspil Sjálfstæðismanna

Orðið á götunni: Morfís útspil Sjálfstæðismanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri
Eyjan
Fyrir 1 viku

Stefnuræða forsætisráðherra: Biður fólk um að gæta orða sinna

Stefnuræða forsætisráðherra: Biður fólk um að gæta orða sinna