Í ársbyrjun 2020 var brjóstmynd Friðriks V, konungs Danmerkur og Noregs 1746–1766, stolið úr hátíðarsal Konunglega listaakademísins (d. Det Kongelige Danske Kunstakademi) í Kaupmannahöfn. Í bréfi sem ræninginn skildi eftir stóð að hann vildi með athæfinu vekja athygli á að Charlottenborg, þar sem Listaakaemíið er til húsa, hafi verið reist fyrir tekjur af þrælaverslun en Friðrik V var stofnandi akademísins. Spellvirkinn hafði varpað brjóstmyndinni í höfnina og kafarar fundu ónýtar leifar hennar nokkrum mánuðum síðar. Lektor við Konunglega listaakademíið, Katrine Dirckinck-Holmfeld, játaði á sig afbrotið. Hún var í kjölfarið rekin úr starfi og kærð til lögreglu. Í viðtali við DR2 kvaðst hún stolt af skemmdarverkinu, brjóstmyndin hefði afmyndast og verknaðurinn þar með fullkomnaður.
Afbrotið sem Dirckinck-Holmfeld kallaði listgjörning er endurómur af menningarbylgju vestanhafs sem reis sem hæst um þær mundir þar sem ráðist var að minnismerkjum á þeim grundvelli að óhæfa væri að hampa hinum framliðna. Í frétt bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN kom fram að árið 2021 hefðu alls 73 líkneski er tengdust Suðurríkjasambandinu (e. Confederate States of America) verið fjarlægð eða endurnefnd en þau ríki sem að sambandinu stóðu studdu áframhaldandi þrælahald og minnisvarðarnir því tengdir við kynþáttahatur.
Þessi menningarbylgja tók á sig enn úrkynjaðri mynd hér á landi árið 2022 þegar listakonurnar Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir stálu verki Ásmundar Sveinssonar sem sýnir Guðríði Þorbjarnardóttur, fyrstu hvítu móðurina í Nýja heiminum. Að áliti listakvennanna væri verkið „rasískt“ en upp úr hinu stolna verki útbjuggu þær nýtt „verk“. Helgi Sæmundur Helgason, afabarn myndhöggvarans, gat þess í aðsendri grein á Vísi að með þessu væri vegið að æru Ásmundar enda gæfi höggmyndin ekkert tilefni til þeirrar ályktunar að það fæli í sér einhvers konar upphafningu hvíta kynstofnsins. Helgi Sæmundur sagði gjörninginn vekja óþægileg hugrenningatengsl við þá nýleg niðurbrot minnismerkja vestanhafs — þar sem ekki þyrfti að efast um að menn hafi aðhyllst kynþáttahyggju.
Hér kvikna ótal spurningar um umgengni við söguna og sögulegt endurmat, til að mynda hvort rétt sé að leggja síbreytilega mælikvarða samtímans á viðburði fortíðar — eða hvort ekki sé réttara við athugun sögunnar að setja sig eins mikið inn í fyrri tíðaranda og okkur nútímamönnum frekast er unnt. Ég hygg að flestir sagnfræðingar hallist að hinu síðarnefnda en slíkt er þó æði vandasamt og krefst mikils lærdóms.
Síðla árs 2023 kom út ævisaga séra Friðriks Friðrikssonar sem Guðmundur Magnússon sagnfræðingur skráði. Bókin olli miklu fjaðrafoki, einkanlega frásögn sem þar birtist og eignuð er ónafngreindum heimildarmanni sem Guðmundur kallar „Kristin“. Samkvæmt frásögninni, sem ekki er nákvæm, á séra Friðrik að hafa leitað á viðkomandi er hann var ungur árum en séra Friðrik var á þeim tíma orðinn háaldraður maður og líklega alblindur. Guðmundur hefur allnokkurn fyrirvara á umfjöllun sinni í bókinni og það hafði hann líka í viðtali við fjölmiðlamanninn Egil Helgason í bókmenntaþætti hans, Kiljunni. Þrátt fyrir það urðu afleiðingarnar meiriháttar.
Borgarráð ákvað á fundi sínum hinn 23. nóvember 2023 að fjarlægja minnismerkið um séra Friðrik sem staðið hafði á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs frá árinu 1955, en það er álitið eitt af höfuðverkum Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara. Athygli vekur að þegar borgarráð tók umrædda ákvörðun lá ekki fyrir rannsóknarskýrsla í málinu sem KFUM hafði óskað eftir. Málið hafði raunar ekki fengið neina yfirvegaða umfjöllun. Stjórnmálamennirnir hröpuðu bara að þeirri ályktun sem þeim þótti líklegust til vinsælda fallin þá stundina — allir sem einn.
Í kjölfar þess að Reykjavíkurborg lét fjarlægja verkið hófust deilur um yfirráðarétt að því. Styttan hafði verið reist fyrir forgöngu helstu forystumanna þjóðfélagsins snemma á sjötta áratugnum og efnt til samskota til gerðar og uppsetningar hennar. Birgitta Spuhr, ekkja Sigurjóns Ólafssonar, telur að hún og aðrir erfingjar listamannsins eigi höfundarrétt að verkinu og það eigi því að afhenda listasafni Sigurjóns í Laugarnesi. Reykjavíkurborg hefur fram til þessa aftekið það með öllu.
Annars hafði útgáfa ævisögu séra Friðriks mun margháttaðri eftirmál — einn dáðasti Íslendingur síðustu aldar var skyndilega stimplaður kynferðisafbrotamaður. Þetta vekur upp áleitnar spurningar um það hvernig rétt sé að umgangast söguna; hversu viðamiklar og áreiðanlegar heimildir þurfi að vera svo unnt sé að fella dóma um menn og málefni. Þegar lifandi menn eiga í hlut eru mál rannsökuð vandlega áður en hægt er að komast að niðurstöðu um sekt eða sakleysi þess sem sakaður er um refsiverðan verknað. Þetta leiðir meðal annars af grundvallarreglu siðaðs samfélags að menn teljast saklausir uns sekt hefur verið sönnuð. En eftir því sem lengra líður frá meintum afbrotum verður vitaskuld örðugra að færa sönnur á hvað gerst hefur; meta hvort sannanir teljist fullnægjandi. Þá er ekki heldur hægt að útiloka rangar sakargiftir.
Skýrsla KFUM um málið fæst ekki birt opinberlega, en hún fól ekki í sér eiginlega rannsókn heldur var sögum safnað. Framkvæmdastjóri félagsins komst engu að síður svo að orði laust fyrir jólin 2023 að skýrslan sýndi það „hafið yfir allan vafa að séra Friðrik hafi farið yfir eðlileg mörk í samskiptum við börn“ og bætti því við að ásýnd „séra Friðriks væri því sködduð“ og hygðist KFUM ekki nota nafn hans sem „vörumerki“. Orðalag framkvæmdastjóra KFUM vekur óneitanlega athygli — séra Friðrik sé í huga stjórnar félagsins „vörumerki“ líkt og það sé framleiðandi einhvers varnings á markaði. Samkvæmt heimildum mínum hafði ráðgjafi í almannatengslum á viðskiptasviðinu komið hér að málum enda ber orðalagið merki slíkrar ráðgjafar. Vitaskuld verður arfleifð af þessu tagi ekki afmáð og þær rætur sem hér um ræðir svo djúpar og margþættar að með engu móti verður jafnað við „vörumerki“, slíkt jaðrar við kjánaskap.
Ég fæ ekki séð frá sjónarhóli sagnfræðinnar að dregnar verði neinar öruggar ályktanir út frá umræddum frásögnum eingöngu. Viðmælandi Guðmundar Magnússonar hefur ekki komið fram og aðeins ein frásögn í skýrslu þeirri sem unnin var fyrir KFUM mun vera frá fyrstu hendi og aðrar þá endursagnir. Fálm og þreifingar séra Friðriks verður líka að skoða í því ljósi að hann var orðinn aldurhniginn og líklega alblindur.
Mál séra Friðriks þarf að gaumgæfa miklu betur, frá fleiri sjónarhornum og fleiri raddir þurfa að heyrast. Rétt væri að stjórn KFUM gerði skýrslu sína opinbera, legði fram öll gögn, sem mér virðist raunar að séu rýrari að vöxtum en látið hefur verið í veðri vaka. En yrðu heilindi séra Friðriks enn dregin í efa að því loknu væri rétt að taka gögnin og málið til frekari meðferðar og gaumgæfa hvort tveggja frá sjónarhóli lögfræðinnar og sagnfræðinnar. Við slíka athugun þyrfti að gæta þess að öll hugsanleg sjónarmið kæmu fram — jafnvel þannig að efnt yrði til rökræðu fyrir opnum tjöldum, þar sem mætti hugsa sér að valinkunnir lögmenn tækju að sér málflutning.
Því má síðan velta upp hvort borgarfulltrúarnir sem tóku ákvörðun um niðurrif minnismerkisins án undangenginnar rannsóknar séu nokkru betri en þeir spellvirkjar sem getið var að framan þar eð einungis vandleg rannsókn og rökræða mun færa okkur nær hinu sanna í þessu máli, nær niðurstöðu sem samboðin er siðmenntuðu menningarríki.