María Mjöll Jónsdóttir, sem tók við stöðu sendiherra Íslands í Frakklandi í byrjun ágúst, afhenti Emmanuel Macron, forseta Frakklands, trúnaðarbréf sitt í gær í frönsku forsetahöllinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá íslensku utanríkisþjónustunni. Eins og sjá má fór vel á með nýja sendiherranum og Frakklandsforseta.
„Afhending trúnaðarbréfs er mikilvæg athöfn í upphafi starfs hvers sendiherra á nýrri starfsstöð. Það er fyrst eftir afhendingu trúnaðarbréfs sem sendiherra getur beitt sér formlega sem fulltrúi ríkis. Trúnaðarbréfið er undirritað af forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, og afhent þjóðhöfðingja gistiríkisins,“ segir í áðurnefndri tilkynningu.