„Nei, nú er mælirinn fullur! Maður má ekkert í þessu þjóðfélagi! Maður má ekki fara út að borða með vinum sínum og skemmta sér — maður má ekki neitt fyrir ykkur fasistunum! Viljið þið ekki aflífa mig bara? Viljið þið það ekki? Viljið þið ekki bara krossfesta mig á staðnum bara? Viljið þið það ekki?!“
Ég hygg að velflestir kannist undir eins við reiðilesturinn hér að ofan sem er úr áramótaskaupi ríkissjónvarpsins 1984 þar sem pelsklædd kona á frúarbifreið er stöðvuð af lögreglu í Lönguhlíðinni, bersýnilega vel við skál enda aksturslagið eftir því. Og lögregluþjónninn pasturslitli fær það óþvegið. Myndbrotið má finna á efnisveitunni Youtube og hefur verið spilað 135 þúsund sinnum.
Þetta þykir Íslendingum fyndið, hinn bjálfalegi og lingerði lögregluþjónn er endurtekið stef í íslenskum gamanþáttum, frá revíum þriðja áratugarins til Spaugstofunnar. Í einni revíu millistríðsáranna er hent gaman að nafngreindum lögregluþjónum sem láti sig hverfa inn í kvikmyndahúsin á vaktinni og að einhverju marki virðist agaleysi hafa verið vandamál í lögreglu bæjarins á árum áður en svo er að sjá sem tekist hafi að koma skikki á lögregluliðið í lögreglustjóratíð Hermanns Jónassonar og síðar Agnars Kofoed-Hansen, sem stýrði lögreglunni með myndarbrag á árum síðari heimsstyrjaldar.
Gamall skólabróðir minn úr Menntaskólanum í Reykjavík, Arnar Þór Stefánsson hæstaréttarlögmaður birti pistil á fésbókarsíðu sinni í vikunni sem leið þar sem hann gerði að umtalsefni hversu óhönduglega lögreglu gengi að fást við afbrot önnur en þau allra alvarlegustu. Yfirskrift færslu Arnars Þórs er: „Borga „minniháttar“ glæpir sig á Íslandi?“
Hann gengur svo langt að segja lögreglu „skila fullkomlega auðu“ þegar um er að ræða vægari afbrot eins og innbrot eða þjófnað en tilefni pistilsins voru fréttir af umfangsmiklum þjófnaði á dísilolíu þar sem lögregla hafði lítið aðhafst, sem og ítrekaðar fregnir af búðarhnupli. Gefum Arnari Þór orðið:
„Úrræðaleysið er algert og afleiðingaleysið æpandi. Hópar virðast fara hér um rænandi og ruplandi og fátt er gert til að stöðva þessa glæpi. Náist brotamennirnir, sem fá dæmi eru um, fer mál þeirra í bunkann stóra hjá lögreglu. Málin eru lítt ef nokkuð rannsökuð og ekki ákært í þeim fyrr en eftir dúk og disk, ef þá ákært er yfir höfuð.“
Á meðan haldi lögleysan áfram sem grafi aftur undan trausti hins almenna borgara til réttarkerfisins. Um sé að ræða rótgróinn vanda sem þurfi að vinda ofan af. Það verði þó ekki gert nema með samstilltu átaki stjórnmálamanna, lögreglu og réttarvörslukerfisins en eins og Arnar Þór bendir á er hætt við að menn taki lögin í eigin hendur bregðist lögregla ekki við afbrotum og svo virðist sem það sé einmitt að eiga sér stað í auknum mæli.
Nafni Arnars Þórs lögmanns hafði einnig verið í fréttum, Arnar Þór Ólafsson, framkvæmdastjóri flutningafyrirtækisins Fraktlausna. Tjón fyrirtækis hans af völdum dísilþjófnaður nú í sumar hleypur á milljónum króna en aðspurður segir hann fjögur fyrirtæki til viðbótar hafa lent í sömu raunum en lögregla lítið aðhafst og svo fór að hann réðst sjálfur í að hafa uppi á þjófunum. Víða um bæinn fundu hann og samstarfsmenn hans bifreiðar fullar af eldsneytisbrúsum og olíu.
En Arnar Þór Ólafsson sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum við lögreglu. Eftir að hann kærði athæfið heyrði hann ekkert frá lögreglu uns honum barst símtal ofan af lögreglustöð þar sem lögregluþjónn kvartaði undan því að Arnar Þór hefði verið ógnandi gagnvart meintum dísilþjófi. Í fyrstu samskiptum sínum við lögreglu var brotaþolinn settur í hlutverk árásarmanns. Og í færslu á fésbókinni sagði Arnar Þór að sér virtist sem það eina sem máli skipti væru réttindi glæpamanna, þetta væri „algjörlega sturlað“ eins og hann orðaði það.
Eitthvað virðist lögregla hafa séð að sér því í kjölfar fréttaflutnings af sleifarlagi við rannsókn málsins dreifði hún á veraldarvefnum mynd af dísilþjófunum og óskaði eftir upplýsingum um mennina. Skömmu síðar var myndin fjarlægð og lögregla baðst afsökunar á birtingu hennar þar sem mikið hefði verið átt við myndina með aðstoð tölvutækni!
Það er engu líkara en við séum að fylgjast með þeim Geir og Grana í Spaugstofunni. Ég tók líka eftir því að flokkur „virkra í athugasemdum“ var hættur að hneykslast á vinnubrögðunum — lögregluliðið var bara haft að háði og spotti.
Dómsmálaráðherra hefur heitið stórauknum fjármunum til löggæslumála en eðlilegt er að spyrja sig hvort vandinn sé ekki margþættari en svo að hann felist einvörðungu í skorti á fjármagni. Er lögregluliðinu nægilega vel stýrt? Er skipulag þess nógu gott? Við blasir að á meðan ekki er tekið af festu á hvers kyns afbrotum mun vandinn magnast allt þar til hann verður óviðráðanlegur og samfélag lögleysu tekur við þar sem almenningur þarf að víggirða hús sín og fyrirtæki ráða sér vopnaða verði.
Það er þeim mun mikilvægara að bregðast við af festu sé haft í huga að ekkert ríki álfunnar er jafnvarnarlaust og Ísland. Mér hefur aftur á móti heyrst á tali ýmissa stjórnmálamanna og embættismanna á undanförnum misserum að landsmenn verði bara að sætta sig við stöðugt alvarlegri afbrot, glæpaaldan sé komin til að vera af því að svona sé þetta líka orðið í stórborgum hinna Norðurlandanna. Það er afleitt að hlusta á slík viðhorf. Landsmenn eiga heimtingu á að stjórnvöld setji sér skýr markmið um að uppræta afbrot sem mest. Í jafnfámennu þjóðfélagi og okkar eiga glæpir að vera fátíðir — viðmiðið eru ekki milljónaborgir annarra landa. Það er heldur ekkert náttúrulögmál að glæpir fari vaxandi heldur er hér um að ræða sjúkdómseinkenni samfélags þar sem ráðamenn skirrast við að taka á vandanum, með öðrum orðum: láta glæpi viðgangast.
Og til þess að lægja glæpaölduna þarf að taka af festu á öllum afbrotum, ekki einvörðungu þeim allra alvarlegustu. Sömuleiðis þarf að ráðast í margvíslegar fyrirbyggjandi aðgerðir, svo sem eftirlit með ýmiss konar ólöglegri starfsemi (sem mun sannarlega hafa í för með sér sparnað til lengri tíma litið). Verði þetta gert mun líka virðing fyrir lögreglu fara vaxandi og kannski hún hætti að vera aðhlátursefni borgaranna.