Hildur Sverrisdóttir hefur sagt af sér sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, en hún hefur gengt stöðunni síðan í nóvember 2023.
Í færslu á Facebook segist Hildur ekki hætt þingstörfum og hlakki til að vinna landinu og flokknum til heilla.
„Það hefur legið fyrir frá landsfundi að formannsskiptum myndu mögulega fylgja breytingar. Tillögu formanns um nýjan þingflokksformann stendur nú til að leggja fyrir þingflokkinn. Ég er afskaplega þakklát fyrir stuðninginn sem ég hef frá þingmönnum um að halda samt áfram í því hlutverki en er þeirrar skoðunar að engum sé greiði gerður með því að etja þingflokknum út í átök á borð við slíka atkvæðagreiðslu. Ég hef því ákveðið að hætta sem formaður þingflokksins áður en til hennar kemur.
Það hefur verið mér mikill heiður að vera í hlutverki þingflokksformanns undanfarin tvö ár. Verkefnin voru oft krefjandi og sérstaklega á nýliðnum átakavetri en ég geng stolt frá mínum verkum og veit að þau vann ég öll af heilindum. Ég er aldeilis ekki hætt í þingstörfunum og hlakka til að vinna áfram landinu og flokknum mínum til heilla. “