Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni, segir að aðild Íslands að ESB myndi ekki hafa í för með sér neina ógn við íslenskan sjávarútveg. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.
„Samkvæmt reglum ESB fá eingöngu þjóðir með nýlega veiðireynslu að veiða fisk í lögsögu aðildarríkja. Eingöngu Íslendingar hafa veiðireynslu í íslenskri lögsögu og því sætu íslensk skip áfram ein að íslenskum miðum eftir aðild. Aðildarríki ráða sömuleiðis sjálf hvernig þau útdeila kvótanum sínum. ESB aðild er því engin ógn við sjávarútveginn,“ segir í greininni.
Þetta er eitt 12 atriða sem Ágúst Ólafur tiltekur í grein sinni sem hann segir að skipti máli varðandi mögulega aðild Íslands að ESB. Hann tiltekur meðal annars að vextir séu þrefalt hærri á Íslandi en í ESB. Verðlag sé það hæsta í Evrópu. Vissulega séu laun á Íslandi há en þó séu a.m.k. fimm aðildarríki ESB með svipað há laun og á Íslandi en lægra verðlag.
Ágúst Ólafur segir enn fremur:
„Flest stærri fyrirtækja landsins, eða um 230 talsins, og þar á meðal eru sjávarútvegsrisarnir, hafa yfirgefið krónuna sem gjaldmiðil og nota nú þegar evru eða dollar. Almenningur og minni fyrirtæki sitja hins vegar uppi með krónuna með miklum tilkostnaði.“
Sjá nánar hér.