fbpx
Fimmtudagur 14.ágúst 2025
Eyjan

Þorsteinn Pálsson: Hvers vegna voru tillögur um afturköllun umsóknar svæfðar í tíð Sigmundar Davíðs og Guðlaugs Þórs?

Eyjan
Fimmtudaginn 14. ágúst 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ætti ekki formaður utanríkismálanefndar Alþingis að kalla Guðlaug Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson á fund nefndarinnar til að svara því hvers vegna þingsályktunartillaga um afturköllun aðildarumsóknar Íslands að ESB var svæfð í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og hverjir það voru í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem svæfðu sams konar tillögu frá Guðlaugi Þór, er hann var utanríkisráðherra. Þetta skrifar Þorsteinn Pálsson af kögunarhóli á Eyjunni í dag.

Höfðu þessar ríkisstjórnir ekki þann þingmeirihluta sem þær sögðust hafa? Voru aðrir hagsmunir teknir fram fyrir stærsta utanríkispólitíska hjartansmál stjórnarflokkanna? Eða voru ráðherrarnir ekki með hugann við það sem þeir töldu mestu hagsmuni Íslands?“ spyr Þorsteinn.

Tilefni skrifa Þorsteins er sú gagnrýni sem Guðlaugur Þór hefur orðið fyrir vegna minnisleysis um skýrslu sem var unnin á hans vegum en aldrei birt opinberlega og gagnrýni Diljár Mistar Einarsdóttur vegna meints skorts á hagsmunagæslu af hálfu íslenskra stjórnvalda gagnvart ESB,. m.a. vegna tollamála.

Minnisleysi Guðlaugs Þórs kallar að mati Þorsteins á tvær spurningar:

1) Er réttmætt að gagnrýna alþingismann og fyrrum ráðherra til margra ára fyrir það eitt að reka ekki minni til einnar skýrslu?

2) Hvernig reyndist Guðlaugur Þór í hagsmunagæslu fyrir Ísland sem ráðherra og áhrifaríkur stjórnarþingmaður?

Þorsteinn hefur samúð með því að menn muni ekki endilega alla þá hluti sem sýslað var með fyrir mörgum árum og telur umræðu um minnisleysi Guðlaugs Þórs hafa ákveðið skemmtanagildi en litla pólitíska þýðingu.

Meira máli skipti hvernig Guðlaugur Þór hafi reynst í hagsmunagæslu fyrir Ísland. Matið á því fari hins vegar eftir því frá hvaða sjónarhorni sé horft. Í þeim efnum verði að hafa í huga að frá 2013 hafi þingmenn Sjálfstæðismanna bara staðið um eitt pólitískt hjartansmál sem sé að koma í veg fyrir að þjóðin fái að ráða því sjálf hvort gengið verði til viðræðna við ESB um fulla aðild Íslands í stað 80 prósenta aðildar í gegnum EES-samninginn.

Hann segir að frá hans sjónarhorni sé andstaða Guðlaugs Þórs við þjóðaratkvæði og hugsanlega fulla aðild að ESB í andstöðu við hagsmuni fólksins í landinu. „Á hinn bóginn virði ég honum annað til betri vegar. Í ellefu ár sem stjórnarþingmaður og síðar ráðherra, og þar af utanríkisráðherra í fimm ár, kaus hann fremur að láta aðildarumsókn Íslands liggja í dvala en að afturkalla hana.“

Það auki enn á virðinguna fyrir Guðlaugi Þór að afturköllunin var helsta utanríkispólitíska hjartansmál hans allan þennan tíma. Þá hrósar hann viðskiptasamstarfssamkomulagi hans við fyrri Trumpstjórnina 2019 þó að síðari Trumpstjórnin hafi annaðhvort gleymt því samkomulagi eða telji það ekki pappírsins virði.

Þorsteinn segist hins vegar ekki átta sig alveg á því hvernig þessi framganga Guðlaugs Þórs blasi við frá Sjónarhorni Diljár Mistar sem hrópi nú hæst um skort á hagsmunagæslu fyrir Ísland. Hann rifjar upp að fyrir skömmu krafðist Diljá Mist skyndifundar í utanríkismálanefnd til að gæta að íslenskum hagsmunum en mætti svo ekki sjálf á fundinn.

Viku seinna hafi Diljá Mist mætt á annan fund utanríkismálanefndar. Eftir þann fund hafi hún greint frá því að hún hafi óskað eftir lista yfir flugferðir utanríkisráðherra. „Af honum dró hún þá ályktun að verulega hefði skort á hagsmunagæsluna. Ferðirnar voru sem sagt ekki allar til Brussel.

Mælikvarðinn var ekki pólitísk afstaða heldur fjöldi flugferða!!!

Áður hafði Diljá Mist talið að það væri ögrun við fullveldi Íslands að Ursula von der Leyen skyldi þiggja boð um að heimsækja Ísland og eiga viðræður við forsætisráðherra og utanríkisráðherra um öryggis- og viðskiptamál hér heima hjá okkur.

Hefðu ráðherrarnir aftur á móti flogið til Brussel hefði flugmiðalistinn orðið lengri. Þá hefði Diljá Mist þurft að finna sér annan mælikvarða.“

Þorsteinn rifjar svo upp þá svæfingu þingsályktunartillagna um afturköllun aðildarumsóknar í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs og utanríkisráðherratíð Guðlaugs Þórs sem vikið er að hér að ofan.

Þorsteinn telur að skýr svör ráðherranna við spurningum um ástæður þess að þingsályktunartillögurnar voru svæfðar og hverjir voru þar að verki gætu auðveldað Diljá Mist að finna mælikvarða á góða hagsmunagæslu frá hennar sjónarhorni.

Kjósendur geta þá dæmt hvort eðlisþyngd stóryrða hennar er nær blýi eða dúni. Það hefur meiri málefnalega þýðingu en gleymska fyrrum utanríkisráðherra.“

Af kögunarhóli í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 vikum

Helgi Seljan kom Guðlaugi í opna skjöldu – Ber við minnisleysi um sína eigin skýrslu

Helgi Seljan kom Guðlaugi í opna skjöldu – Ber við minnisleysi um sína eigin skýrslu
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Foringi herforingjastjórnarinnar hrósaði Trump sem aflétti þá refsiaðgerðum og tollum gagnvart landinu

Foringi herforingjastjórnarinnar hrósaði Trump sem aflétti þá refsiaðgerðum og tollum gagnvart landinu