Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, brá nokkuð þegar forseti Alþingsi tilkynnti að umræðu um strandveiðifrumvarpið hefði verið frestað og að aftur stæði til að ræða um veiðigjöldin. Hafði stjórnarandstaðan átt von á öðru þar sem atvinnuvegaráðherra hafið í færslu á Facebook lagt áherslu á hversu mikilvægt væri að afgreiða strandveiðifrumvarpið svo ekki þurfi að stöðva strandveiðar eftir um viku með tilheyrandi tjóni fyrir þá sem hafa atvinnu af slíku og fjölskyldur þeirra.
Guðlaugur steig upp í pontu og átti til að byrja með varla orð.
„Já, virðulegur forseti, skrítið þing verður skrítnara og skrítnara með hverri mínútunni [þingmaður flissar]. Ég verð að viðurkenna það að maður er svona pínulítið ringlaður. Erum við komin aftur í veiðigjöldin?! [þingmaður snýr sér við og beinir máli sínu að forseta Alþingis] ÞETTA ER GEGGJAÐUR DAGUR [þingmaður hlær sem og þingmenn í sal hlæja með] Hvað er þetta?! [meiri hlátur] Já, að sjálfsögðu aftur komin í veiðigjöldin. Já, það er væntanlega búið að stoppa málþófið í, já, smábátafrumvarpinu, jájájá, svo ég skilji þetta. Bíddu jú, við vorum alveg í þrjá tíma í umræðunni, jájájájá. Já, það er hérna, við erum komin í veiðigjöldin. Já, sko, af því að ég er alveg að átta mig á þessu, virðulegi forseti.“
Guðlaugur bendir á að Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hafi brigslað stjórnarandstöðunni um málþóf um strandveiðifrumvarpið þó umræðan væri aðeins rétt að byrja og því skjóti skökku við að taka málið af dagskrá.
„Við sko vorum að stöðva gríðarlegt hagsmunamál út af því að við erum með nokkrar ræður í smábátafrumvarpinu sem að hæstvirt ríkisstjórn hafi áhyggjur af því að verið væri að skaða hagsmuni, hundruð fjölskyldna, þannig að þau taka það af dagskrá, máli sem þau eru brjáluð yfir að við vorum í málþófi í þrjá tíma yfir. Vegna þess að það eru svo miklir hagsmunir gagnvart fjölskyldunum sem eru í smábátaútgerð. Já, virðulegi forseti, ég hélt að það væri bara háttvirtur þingmaður, Jón Gnarr, sem væri með sketsa hérna sko. En þetta er bara einn skets þessi ríkisstjórn. Og þetta væri bara allt í lagi, virðulegi forseti, ef þessi hæstvirta ríkisstjórn, nei allt í lagi, það væri ekki gott. Ég tek þetta til baka en það væri mun skárra ef þeir væru að stýra skólafélagi en ekki þjóðfélagi því þetta er orðið algerlega galið.
Þetta er fullkomlega galið og við erum að tala um það hér að hér undir og í dag hafa verið að ræða tvö mál sem eru þess eðlis að þau snerta hagsmuni Íslands eins djúpt eins og það getur orðið. Við erum að tala um undirstöðuatvinnuveg íslensku þjóðarinnar og nú er það þannig, virðulegi forseti, að það er ekkert nýtt í íslensku samfélagi. Það er ekkert nýtt í íslenskri sögu að menn hafi tekist á um þessi mál, ekkert nýtt, og það er hins vegar tiltölulega nýtt að menn hafi verið að deila um það sem er gott í sjálfu sér, hversu mikið hærri skatta er hægt að hafa af auðlindinni. Því þeir greiða hærri skatta en aðrar atvinnugreinar. Hér áður fyrr var það þannig hvernig skattgreiðendur ættu að geta stutt útgerð sem stóð ekki vel.“
Guðlaugur gagnrýndi svo ríkisstjórnina fyrir flumbrugang og ofríki. Það sé verið að koma málum á dagskrá samkvæmt undantekningum, það sé verið að takmarka allt samráð, takmarka dýpt umræðu í nefndum og svo sé þess krafist að frumvörp fái bara skjóta afgreiðslu á þingi.
„Þetta er myndin. Þetta er staðan, virðulegi forseti, og það er auðvitað hægt að gantast með þetta. Það er gott oft að geta gantast því að það svona léttir lundina. En aðalatriðið er það að hér erum við bara að tala um gríðarlega alvarlega stöðu.“
Keyra eigi málin í gegn án þess að svara málefnalegum athugasemdum. Það sé kjarni málsins og því þurfi stjórnarandstaðan að kalla eftir þessum svörum „vegna þess að það verður að gera það.“
althingi-clip-1751989426