Það er greinilegt að heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í síðustu viku hefur valdið rúmruski í afkimum íslenskra stjórnmála. Svona fyrir fram hefði mátt búast við því að fagnaðarefni væri að svo áhrifamikill stjórnmálamaður tæki sér tíma til að sækja Ísland heim. En vænisýki og uppdiktaðar sögur um tilgang heimsóknarinnar hafa grafið um sig í hópi þeirra sem fyrir fram hafa ákveðið að allt sé vont sem evrópskt er.
Einkum virðist yfirlýsing forsetans um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í ESB hafa lagst illa í þá fordómafullu.
Fyrir liggur að undanfari umsóknarinnar var samþykkt svohljóðandi þingsályktun 16. júlí 2009:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“
Þessi þingsályktun hefur ekki verið felld úr gildi og stendur enn fyrir sínu og þótt síðari tíma utanríkisráðherra hafi skrifað eitt lettersbréf til ESB um að bakkað skuli út úr viðræðum breytir það engu. Hann var enda umboðslaus í þeim erindisrekstri og fór aukinheldur gegn efni þingsályktunarinnar.
Allt þetta aðildarmál hefur birst í ýmsum myndum – orðið sumum stjórnmálaflokkum erfitt og jafnvel átt sinn þátt í að flokkur sem forðum var stærstur og öflugastur hér á landi er nú vart svipur hjá sjón.
Nú er það þannig að auðvelt er að skilja þá sem ekki vita hvort þeir styðji aðild Íslands að ESB verði þeir spurðir. Til þess er of fátt vitað þótt sterkar vísbendingar séu um að aðildin yrði heillaspor. En að því er ekki hægt að komast nema tekinn verði upp þráðurinn og viðræðum haldið áfram.
Reyndar er að skilja sáttmála ríkisstjórnarinnar á þann veg að mögulegt aðildarferli verði enn varfærnara en til stóð árið 2009, nefnilega að borið verði undir þjóðina hvort halda skuli viðræðum áfram. Verði það samþykkt yrði svo að bera samninginn undir þjóðina þegar hann liggur fyrir. Fyrir þá sem hafa áhyggjur af því að aðild að sambandinu sé feigðarflan ættu þessar tvær þjóðaratkvæðagreiðslur að róa.
Þess vegna er svo snúið að átta sig á afstöðu þeirra sem telja að ekki megi treysta þjóðinni til að ráða framhaldinu. Úr stjórnmálaafkimunum heyrist að þjóðaratkvæði um áframhald viðræðna muni skipta þjóðinni í tvær fylkingar. Það er rökleysa því þjóðin er þegar í tveimur fylkingum varðandi afstöðuna til ESB. Sú sem jákvætt viðhorf hefur til sambandsins er þó sýnu stærri ef marka má skoðanakannanir.
Málgögn þeirra sem ekki vilja að þjóðin ákveði framhaldið, gera mikið úr því hvort umsóknin frá 2009 sé gild eða ekki, eru á villigötum.
Verði niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu sú að halda skuli viðræðum áfram, blasir við að verulegt hagræði felst í því að geta tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Verði framhaldi viðræðna hafnað breytir engu hver staða hinnar 16 ára gömlu umsóknar er.
Aðild Íslands að ESB hefur verið lengi í deiglunni og mál komið til að tekin verði frekari skref og þjóðin fái að kjósa um hvert framhaldið verði – annaðhvort samþykkja framhald viðræðna eða hafna.