„Ég talaði sjálf um það að mér fannst stundum í samtölum okkar formanna að það væru alltaf einhver þriðji aðili sem væri viðstaddur samtöl formanna undir lokin. Það þokaðist ekkert,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, í viðtali við Morgungluggann á RÚV í morgun.
Erfitt er að skilja ummæli hennar í þættinum á annan veg en þann að svo illa hafi gengið að ná þinglokum og ljúka umræðum um veiðigjaldafrumvarpið vegna mikils þrýstings hagsmunaaðila á formenn stjórnarandstöðuflokkanna.
Hún segir að innihald samtala formanna þingflokkanna hafi allt lekið inn í þetta bakland stjórnarandstöðunnar um klukkustund eftir fundina. „Þessi þriðji aðili, hvort sem það var SFF eða aðrir, vissu nokkurn veginn klukkustund eftir að við formennirnir höfðum átt spjall saman, nokkurn veginn innihald alls samtalsins. Mér fannst það miður,“ sagði Þorgerður orðrétt um þetta.
Hún segir stjórnarandstöðuna hafa verið undir gífurlegum þrýstingi hagsmunafla úr sjávarútvegi og það hafi litað framgöngu stjórnarandstöðunnar í málinu.
„Þess vegna þurfum við öll, ekki bara stjórnarmeirihlutinn heldur stjórnarandstaðan, að hugsa hvernig hún vinnur.“
Þorgerður segir mikilvægt að þingstörfin verði með þeim hætti að þingræðið virki og hér verði starfhæfur meirihluti í samræmi við það sem þjóðin kaus síðasta haust.
Þegar Þorgerður var spurð hvort stjórnarandstaðan hafi verið að ganga erinda hagsmunaðila og lekið til þeirra upplýsingum sagði hún:
„Þunginn í öllum umræðum við stjórnarandstöðuna var mjög mikill og þeir voru greinilega undir miklum þrýstingi, ég kann svo sem að skilja það, en þetta var einfaldlega barátta um það sem hefur ekki tekist fyrr en núna, að þjóðin fái sinn sanngjarna hlut í auðlindinni.“