fbpx
Sunnudagur 31.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Ágúst Borgþór skrifar: Hrausti sjúklingurinn – Erum við að tala niður heilbrigðiskerfið?

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 26. júní 2025 17:30

Mynd: Grok. Tengist frétt ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með hæfilegum ýkjum má segja að mér hafi aldrei orðið misdægurt um ævina og eftir því sem árin færast yfir (ég verð 63 ára í haust) gerist ég oftar sekur um karlagrobb yfir hreysti minni og góðri heilsu. Ég hef til dæmis lengi stært mig af því að taka engin lyf.

Ég hef alltaf reynt að segja sjálfum mér að góð heilsa sé ekki sjálfgefin og það ástand geti tekið enda hjá mér eins og öðrum. En undirniðri er sú sjálfsblekking sterk að aldrei geti komið neitt fyrir mig.

Það var mér því nokkurt áfall í vor að greinast með sjúkdóm sem heitir gáttatif og lýsir sér í óreglulegum hjartslætti. Ef gáttatif er ekki meðhöndlað getur það leitt til blóðtappa.

Ólíkt mörgum sem hafa þennan sjúkdóm finn ég ekki fyrir neinum einkennum og upplifi mig sem fyrr, stálhraustan. Einu einkennin eru sært stolt yfir þeirri staðreynd að ég er með sjúkdóm og ekki lengur lyfjalaus, en ég þarf að taka inn blóðþynningarlyf og lyf sem stuðlar að reglu í hjartslætti.

Fyrir nokkrum dögum gekkst ég undir aðgerð á Landspítalanum, svokallaða rafvendingu. Þar er um að ræða rafstuð á brjóstkassann í þeim tilgangi að koma aftur reglu á hjartsláttinn. Sem betur fer er sjúklingur í djúpsvefni á meðan aðgerðin er framkvæmd og er ég ekki til frásagnar um það sem gerðist. Eftirminnilegri var sú reynsla að vera fluttur í sjúkrarúmi á hjólum eftir spítalagangi, stálhraustur maðurinn.

Rafvendingin heppnaðist vel en það á eftir að koma í ljós hvort hjartslátturinn helst áfram í réttum takti eða hvort beita þurfi frekari aðgerðum gegn þessu taktleysi.

Höfundur hættir sér út á hálan ís

Umræða um fjársvelti og neyðarástand í heilbrigðiskerfinu nær langt aftur í tímann en hefur stigmagnast á undanförnum árum. Fullyrðingar á borð við þá að heilbrigðiskerfið sé ónýtt eru svo algengar þær eru nánast eins og síbylja eða almælt tíðindi.

Fjölmiðlar hafa ótölulega oft flutt fréttir um misbrest í heilbrigðisþjónustu. Ég hef án nokkurs vafa skrifað þannig fréttir sjálfur. Það er eðli fjölmiðla að greina frá því sem aflaga fer og engar fréttir eru góðar fréttir.

Nú þarf ég að gæta orða minna. Ég vil ekki á nokkurn hátt reyna að draga í efa upplifun þeirra sem telja sig hafa fengið slæma heilbrigðisþjónustu og borið skaða af því. Síst af öllu vil ég gera lítið úr afleiðingum læknamistaka.

En miðað við reynslu mína og minna nánustu af heilbrigðisþjónustunni hér á landi get ég ekki varist þeirri tilhugsun að við séum að tala niður heilbrigðiskerfið. Við tölum aðeins um misbrestina en ekki það sem gengur vel því það er ekki í frásögur færandi þegar allt gengur vel í sjúkrahúsdvölinni eða heimsókninni á bráðamóttöku.

Á minni gáttatifsvegferð hef ég átt í samskiptum við faglegt, fumlaust, röskt, tillitssamt og yfirvegað starfsfólk. Ekki spillir fyrir að mörg þeirra eru líka með fínan húmor.

Hvað mína nánustu varðar þá hafa í þeim ranni komið upp tilvik um bráðahálskirtlatöku, alvarlegt umferðarslys, mjaðmarbrot, fótbrot, blóðtappa og ýmislegt fleira. Hvað varðar meðhöndlum þessara ástvina minna á heilbrigðisstofnunum hef ég fyrst og fremst jákvæða sögu að segja og engin tilvik um alvarleg mistök eða vanrækslu. Og viðmótið er undantekningarlítið til fyrirmyndar.

Ég ítreka: Ég vil ekki gera lítið úr því sem aflaga fer í heilbrigðisþjónustu. En erum við að tala heilbrigðiskerfið niður að ósekju? Ef heilbrigðiskerfið er ónýtt þá erum ég og fjölskylda mín stálheppið fólk. Við ættum kannski að kaupa lottómiða?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Nína Richter skrifar: Þessi mjóa og vonda Monica í Friends

Nína Richter skrifar: Þessi mjóa og vonda Monica í Friends
EyjanFastir pennar
30.07.2025

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Aðild að ESB bakdyramegin

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Aðild að ESB bakdyramegin