Það hljómar hálf undarlega þegar Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, vænir núverandi ráðherra um dónaskap og að sýna Alþingi vanvirðingu.
Hann hefur verið stóryrtur um að ráðherrar hafi ekki allir verið viðstaddir þingfund síðasta laugardag þegar setja þurfti á laugardagsfund í þinginu vegna málþófs og tafaleikja stjórnarandstöðunnar í umræðum um veiðigjaldamálið.
Fjármálaráðherra, sem gegndi embætti fyrir atvinnuvegaráðherra sem var erlendis, var á öðrum stjórnmálafundi á sama tíma. Bergþóri Ólasyni fannst greinilega að tilefni væri fyrir hann að ryðja út úr sér ávirðingum og fúkyrðum sem eru tæplega í samræmi við þær kröfur sem kjósendur gera til þingmanna. Ráðherrann var upptekinn á öðrum fundi í stað þess að hlusta á stagl og endurtekningar stjórnarandstöðunnar enn á ný.
Orðið á götunni er að Bergþór Ólason sé sá þingmaður sem síst hefur efni á að leika einhvern siðgæðispostula í þinginu og ávíta aðra fyrir störf þeirra. Bergþór ræðst á ráðherra fyrir að hafa verið á öðrum fundi á sama tíma og aukafundurinn vegna máþófsins fór fram. Ráðherrann var þó í þinghúsinu á pólitískum fundi en hann sat ekki að drykkju í vinnutímanum á nærliggjandi bar eins og þingmennirnir sem á sínum tíma urðu alræmdir fyrir fádæma ruddaskap á Klausturbar sem frægt var og til mikillar umræðu í þjóðfélaginu á sinum tíma.
Þrír af þessum barflugum á Klausturbar eiga nú sæti á Alþingi fyrir Miðflokkinn. Bergþór Ólason er einn þeirra og sá sem varð uppvís að sverasta orðfærinu á Klausturbar og varð að hverfa í leyfi af Alþingi í kjölfarið á meðan hann hugsaði sinn gang. Hinir, sem eiga sæti á þingi fyrir Miðflokkinn, eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi sýslumaður.
Engin ástæða væri til að rifja upp þetta sex ára gamla mál ef hinir brotlegu í Klausturmálinu gæfu ekki höggstað á sér með þeim hætti sem Bergþór hefur ítrekað gert. Hann ætti að spara sér stóryrðin því það er tæplega innstæða fyrir þeim. Bergþór ræður síst af öllum við það að fara fram með gífuryrðum eftir það sem á undan er gengið. Orbragð hans á Klausturbarnum, sem síðar varð á allra vitorði, var svo yfirgengilegt gagnvart nafngreindu fólki, sértaklega konum, að það gleymist ekki þeim sem hlustað hafa. Honum er fyrir bestu að vanda framgöngu sína.
Orðið á götunni er að málefnafátækt stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu um veiðigjöldin sé dapurleg og enkennist af orðhengilshætti. Það hálmstrá sem loks var gripið til varðandi það að málinu yrði ekki vísað til atvinnuveganefndar þingsins eins og eðlilegt er heldur til fjárhags-og viðskiptanefndar reyndist vera enn ein tilaunin sem fór út um þúfur í þessu ati. Þá var gert út á þann málflutning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að hækkun á þessum frádráttarbæra kostnaði væri skattahækkun sem er út í hött. Frádráttarbær kostnaður í rekstri getur ekki með nokkru móti talist skattur. Það ættu þingmenn að vita en útsendarar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa haldið þessu fram og meðal annars setið yfir þingmönnum stjórnarandstöðunnar í sjálfu þinghúsinu til að stafa blekkingarnar ofan í þá.
Fyrir þá sem styðja ekki núverandi stjórnarandstöðuflokka er framkoma Bergþórs og fleiri stjórnarandstöðuþingmanna ekkert sérstakt áhyggjuefni. Þeir gera ekki annað en að grafa undan sjálfum sér og flokkum sínum og það er svosem allt í lagi að leyfa þeim að halda áfram við þá iðju. En engu að síður er það áhyggjuefni að með ómálefnalegum hætti, málþófi og kjánalegum tafaleikjum, er grafið undan virðingu Alþingis. Ekki er ofan á það bætandi.
Orðið á götunni er að nú velti fólk því fyrir sér hvort Klausturskónarnir hafi ekki átt að vera inni í þinghúsi á fundum þegar þeir sátu klukkustundum saman að sumbli á Klausturbarnum og áunnu sér frægð fyrir – að endemum.