Stjórn Eflingar stéttarfélags hefur sent frá sér ályktun þar sem harðorðar athugasemdir eru gerðar við málflutning Finnbjörns Hermannssonar, forseta ASÍ, í tilefni af niðurstöðu könnunar sem birt var í gær og leiddi ljós að 70% launafólks nái endum saman á meðan 30% launþega glími við verulegar erfiðar aðstæður.
Finnbjörn gerði stöðu þessara 30% hóps, sem margir innflytjendur tilheyra, að umtalsefni sínu og sagði margt annað útskýra stöðu hans en launamun. Til að mynda íslenskukunnátta og skortur á tengslaneti sem þýðir að þessi hópur er útsettari fyrir láglaunastörfum en aðrir þrátt fyrir góða menntun. Við þennan málflutning eru forsvarsmenn Eflingar, með Sólveigu Önnu Jónsdóttur í fararbroddi, ósátt og segja að Samtök atvinnulífsins hljóti að fagna honum.
„Stjórn Eflingar gagnrýnir vitundarleysi um eðli stéttaskiptingar sem birtist í ummælum forseta ASÍ. Í stað þess að viðurkenna að erfið staða verkafólks á íslenskum vinnumarkaði er tilkomin vegna kerfislægra þátta, líkt og kröfu atvinnurekenda um ódýrt vinnuafl til að knýja áfram hjól atvinnulífsins, leitar hann í yfirborðskenndar og villandi greiningar. Samtök atvinnulífsins hljóta að fagna skoðunum forseta ASÍ sem leysir atvinnurekendur undan ábyrgð á ólíðandi ástandi og varpar henni þess í stað á opinber kerfi og einstaklingsbundna þætti, eins og menntunarstig,“ segir í ályktun Eflingar.
Þá segir í ályktuninni að Finnbjörn sé greinilega ekki meðvitaður um að „markmið þeirra atvinnurekenda sem hafa aðflutt fólk í vinnu er að hámarka gróða sinn á kostnað launa vinnuaflsins.“
„Til þess er þaulreyndum og markvissum aðferðum beitt: Kerfi eru útbúin sem gera mikinn innflutning á vinnuafli mögulegan til þess að halda launum verkafólks niðri. Verkafólk er látið vinna á óeðlilega miklum vinnuhraða til að hámarka arðsemi fyrirtækjanna. Verkafólk er látið vinna við mikla undirmönnum til að lækka launakostnað, og fólki er sagt upp ef að það gerir sig líklegt til að leita leiða til að bæta aðstæður sínar og vinnufélaga sinna á vinnustað.“
Þá er fullyrt að félög háskólamenntaðra leggi sitt af mörkum til að viðhalda ástandinu með því að láta sem eina leiðin til þess að öðlast efnahagslegt öryggi sé að feta menntaveginn.
„Stjórn Eflingar gagnrýnir að forseti ASÍ skuli með afstöðu sinni taka undir málflutning BHM og annara fulltrúa menntastéttanna, málflutning sem notaður er markvisst til að beina sjónum almennings frá afleiðingum þess arðránskerfis sem vinnuaflið þarf að búa við. Stjórn Eflingar lýsir yfir vonbrigðum yfir því að málflutningur samninganefnda félagsins og þess hugrakka verkafólks sem leitt hefur kjarabaráttu almennings á Íslandi með verkfallsaðgerðum á höfuðborgarsvæðinu skuli ekki hafa náð eyrum forseta ASÍ. Sú skylda hvílir á forystu ASÍ að horfast heiðarlega í augu við þann mikla vanda sem verkafólk stendur frammi fyrir vegna stéttaskiptingar og misskiptingar í íslensku þjóðlífi,“ segir ennfremur í ályktuninni.