Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn Reykjavíkur, ætlar ekki að bjóða sig fram fyrir flokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir hún að átta ár séu nægur tími í pólitík að hennar mati og nú sé kominn tími á breytingar.
„Ég hef mikla löngun til að takast aftur á við spennandi verkefni í atvinnulífinu og tel að rétti tíminn til þess sé eftir sveitarstjórnarkosningar næsta vor, eftir að hafa þá starfað sem borgarfulltrúi í 8 ár. Ég er afskaplega stolt af starfi mínu sem oddviti Viðreisnar í borginni og verkefnin sem við höfum tekist á við í samstarfi við frábært fólk úr öllum flokkum hafa verið skemmtileg, krefjandi og gefandi,“ skrifar Þórdís Lóa.
Þá segir hún lifa eftir þeirri hugsjón að hollt sé að breyta til á 8-10 ár afresti.
„Það heldur manni á tánum, gefur nýja sýn og opnar ný tækifæri. Ég skil sátt við borgarstjórn og afskaplega stolt af þeim verkum sem við í Viðreisn höfum komið áfram til hagsbóta fyrir borgarbúa. Það er rétt að tilkynna þessa ákvörðun núna á þessum tímapunkti til þess að félagar mínir í Viðreisn geti hafið undirbúning að því að móta nýjan lista með nýju fólki í tæka tíð fyrir kosningarnar. Ég mun áfram vera til aðstoðar eins og þörf er á,“ skrifar Þórdís Lóa.
Þá fer hún yfir þau fjölmörgu verkefni sem hún hefur tekist á við í borgarstjórn á undanförum kjörtímabilum.