„Við bættist að Hótel Saga var auðvitað vel rekstrarhæf og yfirgengileg sóun að brjóta niður megnið af innréttingum hússins, en margt af því var nýlega endurgert.“
Þessi tilvitnun kemur út grein Björns Jóns Bragasonar kennara í Verslunarskóla Íslands og doktorsnema í sagnfræði við Háskóla Íslands sem nefnist „Sukkið vetur á Melum“ og birtist í DV hinn 24. ágúst 2025. Hinn 26. ágúst var höggivið í sömu knérun þegar Ólafur Arnarsson skrifaði á samastað greinina „Hótel Saga: Hver ber ábyrgð á óráðsíunni“ sem var nokkurs konar endursögn á skoðunum Björns Jóns Bragasonar að viðbættum eigin hugleiðingum Ólafs sjálfs. Ólafur skrifaði reyndar aðra grein 25. ágúst 2025 sem hann nefndi „Pólitísk hrossakaup – rándýrt menningarslys á Melunum“ sem er eiginlega eins og þessi sem birtist daginn eftir hinn 26. ágúst hverju sem það sætir. Reyndar tókst Ólafi að hækka kostnaðinn við bygginguna umtalsvert á milli daga og hafa hækkunina eftir engum öðrum en Morgunblaðinu sem DV heldur í miklum metum eins og kunnugt er. Það hefur ef til vill legið svo mikið á að koma boðskapnum á framfæri að það hafi þurft að endurtaka efnið nokkra daga í röð!
Björn Jón hefur, sem sagt, nú í tvígang skrifað greinar um kaup Háskóla Íslands á byggingunni sem hýsti Hótel Sögu í áratugi. Sú fyrsta birtist hinn 5. desember 2021 sem nefndist „Eyðilegging Hótel Sögu í boði nýrrar ríkisstjórnar“ og var með svipuðu yfirbragði og þessar sem DV birti á þessu ári. Greinarnar ganga út á það að verið sé að eyðileggja þessa byggingu með nýju hlutverki á vettvangi Háskóla Íslands, að þarna sé verið að hola niður starfsemi sem sé bæði óþörf og mjög kostnaðarsöm. Greinarnar byggja á ákveðinni fortíðarþrá eftir þeim tíma þegar stjarna Hótel Sögu skein sem skærast. Þær ganga út frá því að hótelið hafi verið í fínu ásigkomulegi þegar ótíðindin dundu yfir með inngripi Háskóla Íslands og Ríkisins. Lögð er áhersla á að kostnaður hafi farið út böndum og engu hafi verið eyrt við þessar breytingar – að Vesturbærinn muni ekki bera sitt barr eftir breytingarnar; Vesturbæingar munu saknað „túrhestana“ sem hafa sprangað um götur á torg á þeirra slóðum í áratugi.
Bændasamtökin reistu þessa byggingu sem opnaði dyr sínar fyrir gestum og gangandi árið 1962 og lengi vel var hótelið eitt af flaggskipum íslenskra gististaða. Þegar kom fram á 21. öldina fór að halla undan fæti og að lokum varð hótelið að hætta rekstri eftir mörg mögur ár og mikið tap. Hótelið var tekið til gjaldþrotaskipta haustið 2021 en hafði hætt rekstri árið 2020.
Þegar greinar þeirra félaga á DV eru lesnar kemur í ljós að ýkjur og rangtúlkanir ríða þar ekki við einteyming. Ég ætla að leyfa mér að ræða nokkur atriði sem skipta miklu málið þegar þessi magnaða Háskólabygging er skoðuð – Saga eins og hún heitir í dag og nú um stundir er verið að taka húsið allt í notkun eftir miklar endurbætur:
Í fyrsta lagi var hótelið búið að vera illa starfshæft í mörg ár, öfugt við það sem Björn Jón hélt fram í nýjustu grein sinni sem vísað var til hér að ofan. Hótelið hékk á horriminni árum saman og lafði um tíma en eftir Covid voru dagar þess taldir.
Í öðru lagi, vegna viðvarandi fjárhagsörðugleika í mörg ár var húsið í mikilli niðurníðslu og í raun miklu verr farið en fólk áttaði sig á. Þrátt fyrir að ákveðnar endurbætur hafi átt sér stað á hluta hússins í kringum 2015 þá sáu fjárfestar sem sprönguðu síðar um húsið þegar hótelinu var að falli komið að það þyrfti að henda nánast hverri spýtu í stórum hluta hússins. Jafnvel þó að þeim hefði verið rétt húsið á silfurfati, eins og Björn Jón virðist vera að leggja til í sinni nýju grein, þá hefði enginn einkaaðili ráðist í þær fjárfestingar sem þurfti.
Í þriðja lagi, þá sameinaðist Kennaraháskólinn Háskóla Íslands árið 2008 – sem var mikið gæfuspor fyrir Ríkið og menntakerfið í landinu – með skýrum áformum um að byggt yrði yfir skólann á Háskólasvæðinu á næstu fimm árum þar eftir. Ekki var staðið við þau loforð.
Í fjórða lagi, þá er flutningur sviðsins á háskólasvæðið lykilatriði til að ná fram þeim faglegu markmiðum að efla samvinnu um kennaramenntun í landinu og renna styrkari stoðum undir það mikilvæga nám. Mér er kunnugt um að þegar er byrjað að ráða inn sameiginlega kennara og því er ljóst að flutningur Menntavísindasviðs í Sögu var stórkostlegur áfangi á þessari mikilvægu vegferð. Það eru allir sammála um að áhrifin verði víðtæk og ég er hissa á menntamanni og kennara eins og Birni Jóni að hann skuli ekki átta sig á þessum kostum.
Í fimmta lagi, má spyrja hvort Birni Jóni finnist líklegt að það hefði verið byggt sérstaklega yfir Menntavísindasviðið á næstu 10 árum eða næstu 20 árum, það er 30–40 árum eftir að samningurinn var gerður um samruna skólanna? Minna má á að hann taldi vænlegri kost í grein sinni nýju að byggja nýjan skóla en að umbreyta Hótel Sögu í þetta rými fyrir Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ég minni þó á að það tók 25 ár að byggja Þjóðarbókhlöðina sem þó var eyrnamerkt sérstökum tappaskatti á allt brennivín í landinu en samt tók það þennan tíma. Edda – hús íslenskunar tók 18 ár í byggingu og þó var menntakonan Katrín Jakobsdóttir bæði mennta- og forsætisráðherra lengst af á því tímabili. Er það virkilega líklegt að ráðamenn þjóðarinnar hefðu stokkið til og byggt hús yfir Menntavísindasviðið á næsta mannsaldri? Svarið er því miður neikvætt.
Í sjötta lagi, vekur það undrun að DV-liðar skulu ekki átta sig á hve einstakt tækifæri það er fyrir Háskóla Íslands og Félagsstofnun Stúdenta að eignast Sögu, þessa glæsilegu byggingu í miðju háskólasvæðisins. Það verður að gera þær kröfur að fólk sem hefur atvinnu að því að skrifa pistla í blöðin eins og DV að það hafa einhverja framtíðarsýn, átti sig á hvers konar hvalreki byggingin er fyrir Háskólasamfélagið á næstu áratugum.
Í sjöunda lagi liggur fyrir að Suðurgatan verður minnkuð og svæðið sem hún tekur upp mun tengja byggingar á Háskólalóðinni vel saman. Það liggja fyrir áætlanir í þessu sambandi sem munu hafa mikil og góð áhrif á tengingar einstaka bygginga á svæðinu. Allir sem hafa lagt leið sína í háskólastofnanir erlendis skilja þýðingu þessa – hversu mikilvægt það er að það myndist samfella með tengingu milli einstakra bygginga skólanna.
Í áttunda lagi, Háskóli Íslands er langstærsti og öflugasti háskóli landsins með gríðarlega reynslu af því að byggja og reka húsnæði. Finnst ykkur DV-liðum virkilega líklegt – eins og haldið er fram í þessum skrifum ykkar – að menn hafi bara hent í þetta einhverjum hugmyndum án þess að grandskoða þörfina? Svarið er neikvætt. Fyrir leggur ítarleg þarfagreining sem unnið hefur verið að árum saman hvað Menntavísindasviðið þurfi til að fá að dafan áfram, samfélaginu til heilla. Niðurstaðan er sú og Háskólinn hefur gert skýra grein fyrir því að uppreiknað kostnaður per fermetra er um 950 þúsund kr á Sögu á meðan að kostnaður við nýbyggingu Heilbrigðisvísindasviðs á Landspítalalóðinni er um 1.250 þúsund kr per fermetra svo einhver samanburður sé nú nefndur.
Í níunda lagi, íslenska ríkið tekur yfir miklar byggingar sem tilheyrðu Kennaraháskólanum gamla, aðrar byggingar á Neshaga og Hofsvallargötu – mér er ekki kunnugt um verðgildi þeirra en það þarf svo sem enga mannvitsbrekku til að sjá að þarna eru gríðarlega verðmætar eignir í góðu ásigkomulagi á bestu stöðum í bænum.
Menntavísindasvið var um árabil starfrækt á tveimur stöðum, Stakkahlíð og í leiguhúsnæði í Skipholti sem nú er hægt að segja upp. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér innan skólans (og þið hjá DV gætuð ef til vill einnig gert) er sviðið að fara úr um 11 þúsund óhagstæðum fermetrum í um 7 þúsund fermetra. Á Sögu fær Menntavísindasviðið sérhannað rými fyrir sína kennslu, stórbæta náms- og kennsluaðstöðu fyrir verðandi kennara og aðra nemendur sviðsins og nýta einnig annað kennslurými á háskólasvæðinu. Enn á ný, þá vekur það furðu að þið skuluð ekki átta ykkur á miklvægi þessara staðreynda.
Í tíunda lagi, þá er Félagsstofnun stúdenta hluti af þessari uppbygging en með kaupum á Hótel Sögu var mjög aðkallandi húsnæðiskortur stúdenta leystur. Það er ekki lítið heillaspor að fá tækifæri til að stuðla að lausn á áralöngum og viðvarandi húsnæðisvanda nemanda Háskóla Íslands.
Ég hirði ekki um að telja upp fleiri kosti sem liggja þessari ákvörðun til grundvallar en þeir eru fjölmargir aðrir, bæði fjárhagslegir og faglegir. Ég er mest hissa á að þið á DV skulið enn og aftur láta eftir ykkur að birta greinar með endalausum útúrsnúningum og rangfærslum í stað þess að kynna ykkur málin og fjalla um efnið á uppbyggilegan hátt. Mér finnst þessi skrif ekki sæma starfsmönnum DV.
Sigurður Gylfi Magnússon er prófessor við menningarsögu við Háskóla Íslands og Vesturbæingur