Ef kosið yrði til Alþingiskosninga í dag yrði Samfylkingin með yfirburði en Viðreisn minnkar um tæp tvö prósent frá síðustu kosningum, samkvæmt nýrri fylgiskönnun Gallup. Fylgi Sjálfstæðisflokksins stendur nánast í stað frá kosningum. Sósíalistaflokkurinn kemur illa út úr hallarbyltingu sinni í vor og mælist undir tveimur prósentum. Framsóknarflokkurinn er í hættu á að falla af þingi og er fylgið komið niður í 4,5%.
Í umsögn Gallup um niðurstöðurnar segir:
„Helsta breyting milli mælinga er að fylgi Viðreisnar minnkar um tæplega tvö prósentustig. Fylgi annarra flokka breytist lítið eða á bilinu 0-1 prósentustig og eru breytingarnar ekki tölfræðilega marktækar. Hátt í 35% kysu Samfylkinguna ef kosið yrði til Alþingis í dag, tæplega 20% kysu Sjálfstæðisflokkinn, nær 13% Viðreisn, næstum 11% Miðflokkinn og ríflega 7% Flokk fólksins. Rösklega 4% kysu Framsóknarflokkinn en fylgi hans hefur ekki mælst lægra síðan mælingar Gallup hófust í júní 1992. Næstum 4% kysu Vinstri græn, rösklega 3% Pírata, nær 2% Sósíalistaflokk Íslands og um 1% aðra flokka.
Nær 6% myndu skila auðu eða ekki kjósa og tæplega 13% taka ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp.
Næstum 64% þeirra sem taka afstöðu styðja ríkisstjórnina.“