Halla Hrund Logadóttir þingmaður Framsóknar tók ekki þátt í málþófi stjórnarandstöðunnar í veiðigjaldaumræðunni. Hún hefur nú útskýrt hvers vegna í færslu sem hún birti á Facebook í dag.
„Eins og margir vita ákvað ég persónulega að taka ekki þátt í málþófi stjórnarandstöðunnar. Skoðun mína á málinu tjáði ég hins vegar skýrt í nokkrum ræðum á þingi, á fundum og í fjölmiðlum. Sú skoðun er í anda þess sem ég hef lengi talað fyrir í orkumálunum: Það er eðlilegt að nýting takmarkaðra náttúruauðlinda færi þjóðinni arð og hann á að aukast. Þess vegna styð ég markmið ríkisstjórnarinnar um að auka ábata þjóðarinnar af sjávarútvegi. Það er mikilvæg og rétt áhersla sem ber að fagna.“
Halla segist hafa lagt áherslu á að aukin gjaldtaka þurfi að haldast í hendur við blómlegar byggðir og samkeppnishæfa atvinnugrein, enda hafi áður sést á Íslandi hvaða áhrif lagabreytingar geta haft á byggðir. Því þykir Höllu sjálfsagt að kallað sé eftir skýru mati á áhrifum breytinganna á byggðir áður en frumvarp sem veiðigjaldafrumvarpið er samþykkt. Höllu þykja breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu í meðför þingsins hafa verið til bóta, og megi hrósa atvinnuveganefnd fyrir þær. Þó segist Halla hafa heyrt sjónarmið sveitarfélaga á landsbyggðinni sem hefðu viljað að breytingarnar gengju lengra.
„Síðustu vikur þingsins hafa vakið upp blendnar tilfinningar hjá mér. Ég vona að næst náist að ljúka þingstörfum þannig að sem mest sátt ríki á meðal þingflokka. Betri bragur er á slíku en þeirri stigvaxandi átakapólitík sem nú ræður ríkjum sem er óviðunandi og þingi ekki sæmandi, sama hvaða flokki fólk tilheyrir. Við þurfum líka að gæta að halda skynsamlegu tungutaki því það þjónar hvorki okkur né öðrum að líkja stöðu Íslands, friðsamasta ríki heims í alþjóðlegum samanburði, við stríðsástand eða að lýðræðinu sé ógnað. Næg eru átökin í heiminum þar sem slík orðræða á því miður við.“
Halla rekur að á Alþingi sitji dugmikið fólk í öllum flokkum og oft fái sameiginlegir fletir í ræðum og samtölum ekki sömu athygli og átökin fá. Hún hafi átt góða samvinnu við marga þingmenn bæði meirihlutans og minnihlutans og þykir vænt um allt þetta fólk.
„Að mínu mati er samtal og samvinna mikilvægasta aflið sem við þurfum að virkja. Sjáum ekki óvini í hverju horni. Veljum aðra leið. Horfum heldur til samvinnupólitíkur Norðurlandanna þar sem undirbúningur mála er lengri með aðkomu ólíkra flokka og ræðutími í þinginu því styttri.“
Sjálf þekkir Halla úr sínu fyrra starfi sem orkumálastjóri að frumvörp geta verið 1-3 ár í undirbúningi áður en þau verða að lögum. Það sé mikilvægt að horfa ekki aðeins á hraða afgreiðslu sem mælikvarða árangurs, betra sé að stíga vönduð skref í lagasetningu auðlindamála sem standast tímans tönn óháð því hvaða ríkisstjórn er við völd.
Með færslunni birti Halla fjölda svipmynda úr þingstarfinu, úr farsælu samstarfi hennar við bæði stjórnandstæðinga og stjórnarliða.