Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir þingmaður Flokks fólksins segir að þeir flokkar sem hafi farið með völdin hér á landi áratugum saman þurfi að taka því að hafa tapað kosningunum. Nú séu aðrir flokkar við völd. Ekkert í þingræðinu segi að minnihlutinn þurfi að vera sáttur við niðurstöður atkvæðagreiðslu á Alþingi.
Kolbrún skrifar í færslu að nú hafi 71. gr. þingskapalaga verið virkjuð og því búið að stöðva 160 klukkustunda málþófið um veiðigjaldafrumvarpið. Meirihlutinn hafi þegar gert breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við athugasemdir, þá einkum hvað varðar lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki. Síðast en ekki síst hafi ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að ná samningum við stjórnarandstöðuna. Hjá andstöðunni hafi þó ekkert annað komið til greina en að henda frumvarpinu eins og það leggur sig út og frekar samþykkja annað frumvarp, sem stjórnarandstaðan samdi.
„Því miður var engin önnur leið út úr þessum fordæmalausu aðstæðum sem eru alfarið á ábyrgð þessarar sérstöku stjórnarandstöðu sem hefur það helsta hlutverk að standa vörð um allra efnaðasta fólk landsins sem eiga stærstu sjávarútgerðirnar. Fá frumvörp hafa fengið eins mikla yfirlegu og þetta frumvarp sem tekið hefur jákvæðum breytingum í meðförum þingsins.“
Kolbrún skrifaði í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag að stjórnarandstaðan hafi svífst einskis til að trufla framgang þingstarfa. Formenn og þingflokksformenn stjórnarflokkanna hafi teygt sig mjög langt í samningaviðræðum við stjórnarandstöðuna vikum saman. Þetta hafi andstaðan metið sem veikleika og gengið á lagið.
„Meira að segja gengið svo langt að afhenda ríkisstjórninni frumvarp frá stjórnarandstöðunni sem ríkisstjórnin gæti náðarsamlega flutt í stað veiðigjaldafrumvarps meirihlutans. Hér er um háalvarlegan hlut að ræða. Stjórnarandstaðan hefur snúið öllu á hvolf, rangtúlkað eða þóst misskilja, ýkt eða fært óspart í stílinn. Þetta gæti ekki verið fjær raunveruleikanum.“
Kolbrún segir tíma til kominn að andstaðan hagi sér eins og fullorðið fólk og sætti sig við nýtt hlutskipti – þau séu í minnihluta.
„Það er augljóst að þeir flokkar sem hafa verið við völd áratugum saman þola illa breytta stöðu sína. En fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin sem eru þeim svo kær. Framkoma stjórnarandstöðunnar einkennist af heift, reiði og biturleika. Fullorðið fólk verður að sýna meiri þroska en þetta. Ekkert í þingræðinu og lýðræðinu segir að minnihluti þurfi og verði að vera sáttur við niðurstöður í atkvæðagreiðslu. Þannig er gangverk lýðræðisins.“
Kolbrún studdi beitingu 71. gr. og gerði grein fyrir atkvæði sínu á þingi þar sem hún sagði þetta erfiðan dag fyrir alla. Það væri óskandi að þessi staða væri ekki upp komin og að hægt hefði verið að semja um þinglok. En það sé fullreynt og engin önnur leið fær.
„Ég þakka guði fyrir að þessi 71. gr. er til í þingskapalögum og hún er til af ástæðu og sú ástæða er hér og nú.“
Til gamans má geta að þó að 71. gr. hafi sárasjaldan verið beitt þá hafa þingmenn í gegnum árin séð fyrir sér að henni verði beitt einmitt eins og nú var gert. Þáverandi forseti sameinaðs þings, Þorvaldur Garðar Kristjánsson úr Sjálfstæðisflokknum, sagði í samtali við Morgunblaðið árið 1988: „Það er aðalsmerki Alþingis, að þingmönnum hverjum og einum gefst mikið ráðrúm til að tjá sig í umræðum. Það er mikill kostur að þurfa sem minnst að takmarka ræðutíma. Þess vegna varðar miklu, að þingmenn misnoti ekki þennan eðliskost Alþingis og hafi skilning á því að fara ekki út fyrir eðlileg mörk í lengd umræðu. Málþóf getur verið mannlegur breyskleiki, þegar menn sjást ekki fyrir í hita baráttunnar. En málþóf getur ekki verið aðferð minnihluta til að koma í veg fyrir eða tefja að mál meirihlutans nái fram að ganga. Til þess eru ákvæði í þingsköpum að koma í veg fyrir slíkt.“