Færsla Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, fer nú um samfélagsmiðla eins og eldur í sinu. Þar minnir Ragnar Þór á mikilvægi framlínustarfsfólks í verslunum í landinu og brýnir fyrir fólki að koma fram við það af virðingu.
„Síðastliðið ár hefur verið verslunarfólki afar erfitt og krefjandi á tímum Covid,“ skrifar Ragnar. „Það er í raun óskiljanlegt hversu lítið tillit hefur verið tekið til mikilvægi framlínustarfa eins og í verslun. Það er varla hægt að gera sér í hugarlund hvernig staðan væri ef almenningur hefði ekki nær óheftan aðgang að nauðsynjavöru og annarri þjónustu.“
Á meðan stjórnvöld völdu starfsstéttir í forgang í bólusetningar var ekkert hugsað um starfsfólk í verslunum þrátt fyrir að VR hafi ítrekað bent stjórnvöldum á mikilvægi þess að verja okkar hópa betur.
Ragnar segist hafa áhyggjur af verslunarfólki í nýrri Covid-bylgju sem nú geisar og því skilningsleysi á stöðu þeirra sem standa vaktina.
Ragnar skrifar áfram:
Það er því ekki annað í stöðunni að við sem samfélag tökum málin í eigin hendur.
Sýnum framlínufólki í verslun þá virðingu sem það á skilið. Bíðum ekki eftir frekari fyrirmælum og setjum upp grímuna og notumst við 2 metra regluna þegar við förum út í búð.
Þannig getum við best þakkað þeim hetjum fyrir sem sjá okkur fyrir nauðsynjavörum og annarri þjónustu á meðan þessi bylgja gengur yfir.
Vinsamlega deildu og taktu þátt í að bæta öryggi framlínufólks í verslun.
Á rétt rúmri klukkustund hafa 130 manns þegar deilt færslu Ragnars, og hundruð til viðbótar tjáð sig undir henni. Það er því ljóst að Ragnar hefur slegið á strengi sem margir geta tekið undir með. Færslu Ragnars má sjá hér að neðan.